Safnanótt fer fram víðs vegar um höfuðborgarsvæðið föstudaginn 7. febrúar. Dagskráin í Kópavogi verður einstaklega fjölbreytt og lifandi þar sem leikið verður á allan tilfinningaskalann með fjörugum lúðrablæstri og lágstemmdum ljóðaviðburðum, gjörningasprengjum og karíókífjöri, skífuþeytingum, listamannaleiðsögnum, fjölskyldusmiðjum og meiru og fleiru.
Hér má finna hlekk inn á alla viðburði Safnanætur í Kópavogi.
Hér má finna dagskrána í tímaröð.
Ljóslistaverk Styrmis Arnar fyrir Kópavogskirkju
Myndlistamaðurinn Styrmir Örn Guðmundsson gerir nýtt ljóslistaverk fyrir Kópavogskirkju í tilefni Safnanætur en verki Styrmis verður varpað á Kópavogskirkju föstudagskvöldið 7. febrúar og laugardagskvöldið 8. febrúar, frá 18 – 24 bæði kvöldin. Huglægar skírskotanir í trú, trúleysi og manngildi koma við sögu sem og gömul og ný tákn en verkið ber titilinn Ó-ljós.
Gjörningafestival | Leið #1 í Gerðarsafni
Í Gerðarsafni á milli klukkan 21 – 23 fer fram gjörningakvöld Gerðarsafns og Hamraborg Festivals en um er að ræða opnunarkvöld gjörningafestivals sem teygir sig yfir allt árið 2025. Listamennirnir sem sýna á þessu opnunarkvöldi festivalsins eru Hrefna Lind Lárusdóttir, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Curro Rodriguez og tvíeykið Tala Njála Ingvarsdóttir & Silfrún Una Guðlaugsdóttir.
Fyrr um kvöldið eða klukkan 19 munu Dýrfinna Benita Basalan og Sadie Cook leiða gesti í gegnum verk sín á samsýningunni Stara sem var nýverið opnuð í safninu.
Í tilefni Safnanætur verður ókeypis á allar sýningar í Gerðarsafni frá klukkan 18 – 23. Veitingastaðurinn Krónikan verður með opið fram eftir kvöldi og á milli 18 – 21 mun DJ Ívar Pétur úr FM Belfast spila lög frá flestum heimshornum með skýran fókus á huggulega og létt-dillandi stemmningu í febrúarmyrkri og rísandi sól.
Kynlegar kringumstæður á bókasafninu
Bókasafnið býður upp á fjölbreytta viðburði fyrir alla fjölskylduna á Safnanótt. Á milli 18 – 23 geta vinahópar og fjölskyldur tekið lagið í karókístofu á jarðhæð. Klukkan 18 les Þorvaldur Davíð Kristjánsson úr Sokkalöbbunum fyrir yngstu börnin og klukkan 20 les Gunnar Helgason úr bókum sínum fyrir ögn eldri krakka. Hægt verður að föndra sér sína eigin liskrúðugu glimmergrímu í tilefni kvöldsins á meðan safnið er opið og á þriðju hæð verður afrísk stimplasmiðja frá 20 – 22 en þá er hægt að koma með föt (boli, skyrtur) eða poka að eigin vali og umbreyta með töff táknum frá Gana.
Klukkan 21 flytur hinn rómaði tónlistarmaður Chris Foster seiðandi þjóðlög frá Bretlandseyjum. Klukkan 22 lesa þær Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Eva Rún Snorradóttir upp úr eigin verkum, birtum og óbirtum og fjalla um sínar eftirlætis hinsegin bókmenntir. Halla Þórlaug og Eva Rún eru listrænir stjórnendur bókmenntahátíðarinnar Queer Situations sem hóf göngu sína árið 2024 í Kópavogi en hátíðin, sem er helguð hinsegin bókmenntum, hefur vakið hefur verðskuldaða athygli.
Fuglar á flandri í Náttúrufræðistofu
Náttúrufræðistofa verður með spennandi og skemmtilegan viðburð um fugla fyrir börn og fjölskyldur klukkan 19. Þar mun Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur, fjalla um alls konar fuglategundir, af hverju sumar þeirra kjósi að vera hér allan veturinn á meðan aðrar leiti til heitari landa á veturna. Gestir geta svo tekið þátt í laufléttum spurningaleik og þau sem skila inn spurningunum eiga möguleika á því að vinna Fuglaspilið eftir Hespu.
Ljóðalestur Arnars Jónssonar á Hljóðbókasafni
Á Hljóðbókasafninu við Digranesveg 5 verður opið til klukkan 21. Á milli 19 og 20 mun Arnar Jónsson, stórleikari og ljóðaunnandi, bjóða upp á lifandi ljóðastund. Þar flytur hann ljóð úr ólíkum áttum, íslensk og útlend, þekkt og utan alfaraleiðar, glaðleg ljóð, harmþrungin, kraftmikil og kyrrlát; ólík að eðli og inntaki en eiga það sammerkt að hafa snert við honum og verið honum hugleikin.
Arnfinnur í Y galleríi
Y gallery verður opið til 21 en þar stendur nú yfir sýning Arnfinns Amazeen, „Nokkurs konar samheiti.“ Arnfinnur Amazeen (f. 1977, Akranesi), stundaði nám við Listaháskóla Íslands og lauk framhaldsnámi frá Glasgow School of Art. Hann hefur búið og starfað í Kaupmannahöfn frá árinu 2006.
Nemendur frá Tónlistarskóla Kópavogs munu svo koma fram í ýmsum rýmum í tilefni Safnanætur og lífga upp hversdaginn. Klukkan 16 fer fram gítarhátíð á jarðhæð Bókasafnsins og í bílakjallaranum gegnt Salnum hljómar hljóðinnsetning frá nemum við Tónver Tónlistarskólans frá 20 – 21.
Við hlökkum til að taka á móti ykkur og skemmta okkur fallega við Menningarmiðjuna í Kópavogi, stutt er á milli húsa, eitthvað fyrir öll og svo má auðvita ekki gleyma Krónikunni sem býður nú uppá ljúffengar pizzur á matseðlinum sínum.