VAKA þjóðlistahátíð 2025 fagnar lifandi hefðum og hreiðrar um sig í Kópavogi

VAKA þjóðlistahátíð 2025 fagnar lifandi hefðum og menningararfi dagana 15. – 21. september í Kópavogi og Reykjavík með fjölbreyttum viðburðum fyrir alla fjölskylduna.

Á VÖKU kemur margt fremsta þjóðlistafólk landsins fram. Þar má hlýða á marga helstu kvæðamenn landsins, njóta þjóðtónlistar frá Íslandi, Noregi og víðar, kynna sér íslenskt handverk sem og sækja erindi og fjölbreyttar vinnustofur í þjóðdönsum, kveðskap, handverki, hljóðfæraleik og danstónlist frá Íslandi, Noregi og Kólumbíu svo eitthvað sé nefnt. Áhersla er lögð á fjölbreytta samveru í formi söngs, dans og samspils.

Meginþema hátíðarinnar í ár er verkefnið og útgáfan Danslög Jónasar – Danslög fyrir fiðlu skráð af Jónasi Helgasyni um 1864. Fyrir rúmum 160 árum skráði Jónas Helgason lög sem hann lék fyrir dansi í Reykjavík og nágrenni á fiðlu sína. Þessi gleymdi tónmenningararfur lítur nú dagsins ljós í nýrri bók ásamt hljóðritum. Útgáfuhóf verður haldið á Bókasafni Kópavogs föstudaginn 19. september kl. 17:00 þar sem ráðherra og fleiri munu ávarpa gesti.

Á hátíðartónleikum síðar um kvöldið mun stórskotalið íslensks og norsks þjóðtónlistarfólks og dansara meðal annars flytja efni úr útgáfunni fyrir gesti í Salnum. Gestum gefst einnig færi á að kynnast tónlistinni og dansinum á fjölbreyttum námskeiðum yfir hátíðina. Efnt verður til dæmis til sérstaks námskeiðs fyrir unga strengjaleikara undir leiðsögn margverðlaunaða norska þjóðlagafiðluleikarans Vegar Vårdal. Þar munu nemendur fá að spreyta sig á danslögunum og glænýjum útsetningum Vegars á þeim.

Fjölbreyttir tónleikar verða á hátíðinni. Á Degi rímnalagsins þann 15. september verða tvennir tónleikar í Salnum. Annars vegar verða tónleikar þar sem tveir skólakórar,  Kvæðabarnafjelag Laufásborgar og sönghópur úr Barnaskóla Hjallastefnunnar, skipaðir börnum á aldrinum 4-14 ára flytja kvæðalög. Sama kvöld verða tónleikar í Salnum þar sem úrval kvæðamanna úr Kvæðamannafélaginu Iðunni kveða. Frumfluttir verða nýir rímnaflokkar eftir hagyrðingana Sigurlín Hermansdóttur – samið í tilefni af 70 ára afmæli Kópavogs – og Helga Zimsen, auk annars efnis.

Föstudaginn 19. september blása ferskir norðanvindar þegar norsku tónlistarmennirnir Vegar Vårdal & Vegard Hansen flytja fjölbreytt og rytmískt efni úr norskum tónlistararfi í bland við íslenska tónlist. Á sömu tónleikum mun Ragga Gröndal Trad Squad, skipuð þeim Ragnheiði Gröndal, Unni Birnu Björnsdóttur, Guðmundi Péturssyni og Pétri Grétarssyni, flytja ferskan þjóðlagabræðing í nýjum búningi. 

Ókeypis er á flesta viðburði hátíðarinnar. Þar má nefna hádegisviðburði í Bókasafni Kópavogs þar sem bókmenntafræðingurinn Ragnar Ingi Aðalsteinsson mun reifa um bragfræði og Andrés Ramón tónlistarmaður mun leiða áheyrendur í ferðalag um Suður-Ameríska þjóðlagatónlist.

Fjölskylduviðburðir verða flestir laugardaginn 20. september. Þar verða viðburðir ætlaðir allri fjölskyldunni, frá yngstu fjölskyldumeðlimum yfir í þá elstu. Boðið verður upp á vinnustofur fyrir alla fjölskylduna í menningarkjarna Kópavogs og þar verður m.a. hægt að spreyta sig á gamla íslenska krosssaumnum, kynnast kólumbískum slagverksleik eða íslenska langspilinu. 

Á hápunkti hátíðarinnar, Vökupartíi, ganga gestir inn í stórbrotna matarveislu Krónikunnar í uppábúnum forsal Salarins hönnuðum af Birni Loka frá Krot&Krass og FÚSK, njóta kvöldskemmtunar við borðhald áður en dansleikur hefst við undirleik einhverra fremstu dansundirleikara Noregs. Kvöldinu lýkur á þjóðlagabræðingi í boði DJ Kraftgalla. 

VAKA þjóðlistahátíð, sem haldin í tíunda sinn, hreiðrar nú um sig í menningarhúsum Kópavogs en fjölmörg tækifæri leynast í vöggu menningarklasans við Hamraborgina fyrir hátíð sem þessa.

Allar upplýsingar um hátíðina má finna á heimasíðu Vökufélagsins, vakareykjavik.is, og á samfélagsmiðlum þess. Miðar á kvöldtónleika og í Vökupartí er að finna á heimasíðu Salarins og á tix.is

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

23
okt
31
okt
Bókasafn Kópavogs
23
okt
01
nóv
Bókasafn Kópavogs
29
okt
Bókasafn Kópavogs
29
okt
Bókasafn Kópavogs
29
okt
Bókasafn Kópavogs
29
okt
Bókasafn Kópavogs
30
okt
Salurinn
30
okt
Bókasafn Kópavogs
30
okt
Bókasafn Kópavogs
31
okt
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR