Staðarlistamaður Salarins árið 2025

Sóley Stefánsdóttir, tónskáld og lagahöfundur er staðarlistamaður Salarins árið 2025.

Sóley Stefánsdóttir, tónskáld og lagahöfundur er staðarlistamaður Salarins árið 2025.

Sóley útskrifaðist af tónsmíðabraut Listaháskóla Íslands árið 2010 og hefur síðan þá gefið út fjölmargar plötur og verk sem hlotið hafa bæði verðlaun og viðurkenningar.  Árið 2022 var Sóley tilnefnd til Norrænu Tónlistarverðlaunanna og hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sama ár fyrir plötu sína Mother Melancholia. 

Síðustu fimmtán ár hefur Sóley ferðast nánast viðstöðulaust um heiminn til að flytja tónlist sína en hún kennir einnig tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og Menntaskólann í tónlist.

50 ára afmæli kvennafrídagsins

Nýtt verk frumflutt í Salnum á 50 ára afmælis kvennafrídagsins þann 24. október.


quean : kven : queen er nýtt verk úr smiðju tónlistarkonunnar Sóleyjar Stefánsdóttur og leikstjórans Samantha Shay og verður frumflutt á sviði Salarins þann 24. október, á 50 ára afmæli kvennaverkfallsins.

Í verkinu eru rannsakaðar ýmsar hliðar feminísmans, hið mjúka form kvenlíkamans, hávaða og einfaldleika, þögnina og flókið móðurlífið.

Sóley og Samantha hafa lengi unnið saman í gegnum tónlist, kvikmyndir og dans og hefur samstarf þeirra síðustu ára litast meðal annars af brennandi áhuga þeirra á viðfangsefnum kvenna (vist-femínisma) og jarðarinnar og þær hliðstæður sem finna má í orðræðu um konur og jörðina.

Verkið er lifandi skúlptúr þar sem þemu femínisma og undirokunar sýna okkur hvernig valdníðandi kerfi heimsins tengjast hvort öðru innbyrðis. Verkið er á sama tíma óður til samstöðu kvenna. 

Tónskáldaverkefni Salarins

Tónleikarnir eru liður í tónskáldaverkefni Salarins sem hefur undanfarin ár pantað nýja tónlist af tónskáldum úr ólíkum geirumþ Árið 2021 frumflutti Strokkvartettinn Siggi fjóra nýja strengjakvartetta í Salnum og ári síðar, 2022, voru frumflutt fimm ný hljóðverk sem hverfast í kringum hljóðheim Kópavogs. Staðarlistamaðurinn árið 2023 var Davíð Þór Jónsson, píanóleikari, tónskáld og spunatónlistarmaður sem beindi sjónum að galdri augnabliksins og spunans í tónleikaþrennu sem teygði sig yfir nokkra mánuði.

Á síðasta ári voru fengin átta tónskáld úr ólíkum áttum til þess að semja tónverk fyrir barnakóra í Kópavogi sem frumflutt voru á 25 ára afmæli Salarins. Tónskáldaverkefni Salarins er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogs.

.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

24
okt
Salurinn

NÝJUSTU FRÉTTIR