Helga Katrínardóttir
Ég býð til veislu!
Veislugestir: Ég.
Matarskipulag: Allt sem ég hef þráð að borða síðustu 40 vikur.
Þema: Algjört hömluleysi.
Ég er hýsill. Hýsill sem varð allt í einu almenningseign. Aðrir hafa skoðanir á því hvernig ég hugsa um líkama minn, hvað ég set ofan í mig. En það skiptir engu máli. Það skiptir engu máli því ég get hvort sem er ekki borðað neitt. Svo ég býð til veislu. Veislu þar sem ég mun borða og borða og borða. Þar skal vera nægtaborð og algjört hömluleysi.
Helga Katrínardóttir (f. 1989) er kvikmyndagerðarmaður og ljósmyndari sem býr og starfar í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr listrænni ljósmyndun frá Ljósmyndaskólanum í janúar 2022 og er með BA í ritlist frá Háskóla Íslands. Helga vinnur þvert á miðla með aðaláherslu á filmuljósmyndun, vídeóverk og gjörningalist. Í verkum sínum er sjálfi hennar jafnt sem viðfangsefnum hent í nýjar aðstæður í tiltekinn tíma. Í forgrunni eru fjölskyldumynstur og -hegðun, ásamt rannsókn á því hvernig áföll erfast á milli kynslóða. Áhorfandinn er vakinn til umhugsunar um hverfulleika líðandi stundar sem er ætíð viðvarandi, en þó aldrei innan seilingar.