Ljóðstafur Jóns úr Vör er haldinn af Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar en efnt var til samkeppninnar fyrst árið 2002 í minningu skáldsins Jóns úr Vör.
Ljóðstafinn hlaut að þessu sinni Una Björk Kjerúlf fyrir ljóðið Framlag mitt í minningabanka nærri útdauðra ljóða og var það Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar sem afhenti Unu Björk ljóðstafinn.

Sigrún Björnsdóttir hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið Vængur brýtur sér leið og þriðju verðlaun hlaut Jón Knútur Ámundason fyrir ljóðið Hamfarahlaup.
Að auki hlutu 4 ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar.
Sigrún Björnsdóttir fyrir ljóðið Alltaf í blaðinu, Bjargey Ólafsdóttir fyrir ljóðið Angistarljóð (mínar raunir og kaunir), Ragnheiður Harpa Leifsdóttir fyrir ljóðið Hofsóleyjar og Ragnar H. Blöndal fyrir ljóðið Sumt situr á hakanum.
Alls bárust um 305 ljóð í keppnina að þessu sinni en þau mega ekki hafa birst áður og skulu send inn undir dulnefni höfundar.
Dómnefndina í ár skipuðu Guðrún Hannesdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir og Þórður Sævar Jónsson (formaður).

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogsbæjar
Við sama tilefni voru veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogsbæjar og var dómnefnd sú sama. Fyrstu verðlaun hlaut Katrín Lea S. Sigþórsdóttir, 5. bekk Vatnsendaskóla, fyrir ljóðið Náttúran. Önnur verðlaun hlaut Helena Ósk Guðmundsdóttir, 7. bekk Snælandsskóla fyrir ljóðið Litla hagamúsin og þriðju verðlaun hlaut Carmen Rodriguez Marteinsdóttir, 8. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Bleika herbergið. Auk þess hlutu eftirfarandi viðurkenningar; Emil Máni Lúðvíksson 9. Bekk Lindaskóla fyrir ljóðið Ljóð?, Þuríður Katrín Arnórsdóttir, 7.bekk Lindaskóla fyrir ljóðið Ferðalag tímans, Arnar Freyr Orrason, 9. Bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Tómleiki og Bríet Rós Brynjarsdóttir, 9. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Máney.

Sigurskáldið
Una Björk Kjerúlf er fædd í Reykjavík árið 1975 en ólst upp á Vopnafirði. Hún lærði bókmenntafræði og ritlist við Háskóla Íslands og hefur einkum starfað við kennslu og verkefni tengd tungu og texta.
Rökstuðningur dómnefndar
Sigurljóðið er listilega lipurt og leikandi, en efni þess nokkuð kvíðablandið þegar betur er að gáð.
Upphafsorðin, undirfurðuleg og lauflétt hljóð, mynda nokkurs konar viðlag eða klið í textanum, og eru langt frá því ógnvænleg ein og sér.
Það er hugsanleg fjarvera hljóðanna sjálfra sem vekur ugg um yfirvofandi hvarf enn einnar tegundar rótgróinna mannlegra samskipta.
Að brátt muni engin hönd loka umslagi með léttum lófa, enginn lengur velja frímerki af kostgæfni, bréfberar hverfa og jafnvel fingur viðtakanda verða óþarfir. Póstkassarnir gapa tómir eins og grímur í grískum harmleik, eftirvænting gufar upp og áþreifanleg boð varðveitast hvergi; við munum sitja eftir tómhent.
Lesendur ljóðsins, sem eru eldri en tvævetra, fara létt með að semja í eyðurnar við undirleik viðlagsins, sem að sínu leyti freistar þess að bergmála horfnu hljóðin.
Undirtónn ljóðsins er grunur okkar um að mannleg nánd muni smám saman víkja fyrir ofurvaldi tækninnar.
En erindi ljóðsins er andóf og ljóðinu lýkur með skemmtilegum viðsnúningi sem vekur vonglaða kæti.











