Æsa Sigurjónsdóttir listfræðingur verður með leiðsögn um sýningu listamannanna Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson, Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum miðvikudaginn 24. nóvember kl. 12.15.
Samhliða sýningu þeirra Bryndísar og Mark í Gerðarsafni verður sýningin Visitasíur opnuð í Listasafninu á Akureyri. Æsa er sýningarstjóri sýningarinnar Visitasíur þar sem verk Bryndísar og Mark verða til sýnis og er sú sýning hluti af listrannsóknarverkefninu Ísbirnir á villigötum, unnið í samstarfi sérfræðinga á sviði myndlista, þjóðfræði og náttúru- og umhverfisfræði. Æsa býður því upp á áhugavert samtal á milli þessara tveggja sýninga.
Bryndís og Mark staðsetja list sína sem rannsóknar- og samfélagslist og nota gjarnan samspil manna og dýra í verkefnum sínum til að skoða málefni er varða sögu, menningu og umhverfið. Með listrannsóknum sínum kveikja þau hugleiðingar og samtal um hvernig heimurinn er að breytast og hlutverk okkar mannfólksins í þeim breytingum. Listamennirnir nálgast listsköpun sína með vistfræðilegri og heildrænni sýn. Verk þeirra eru þverfagleg í eðli sínu og taka gjarnan form innsetninga með skúlptúrum, fundnum hlutum, vídeóverkum, hljóði, teikningum, ljósmyndum og textum.
Sýningarstjóri sýningarinnar Óræð lönd: Samtöl í sameiginlegum víddum er Becky Forsythe.
Um Visitasíur:
Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson | Listasafnið á Akureyri (listak.is)
Mynd: Anton Brink.