Bæjarlistamaður Kópavogs 2022

Guðjón Davíð Karlsson

Leikari

Guðjón Davíð Karlsson leikari er landsmönnum góðkunnur. Guðjón Davíð eða Gói útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2005. Hann hefur leikið í fjölda verkefna í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum, samið leikrit og handrit sjónvarpsmynda og leikstýrt bæði í leikhúsi og sjónvarpi.

Gói var fastráðinn við Leikfélag Akureyrar strax eftir útskrift,var ráðinn til Borgarleikhússins árið 2008 og fór svo til Þjóðleikhússins árið 2015.

Hjá LA fór Gói með fjölmörg burðarhlutverk og lék m. a. Markó í Pakkinu á móti, Bjarna í Fullkomnu Brúðkaupi, Baldur í Litlu hryllingsbúðinni, Díma í Maríubjöllunni, Ralf í Herra Kolbert, Davey í Svörtum ketti og ýmis hlutverk í Ökutímum.

Gói lék mörg burðarhlutverk í Borgarleikhúsinu, m.a. í Fló á skinni, Fólkinu í blokkinni, Söngvaseið, Heima er best, Gauragangur, Fólkinu í kjallaranum, Ofviðrinu, Nei, ráðherra, Kirsuberjagarðinum, Eldhafi, Mary Poppins, Á sama tíma að ári, Beint í æð, Skálmöld og Er ekki nóg að elska. Guðjón samdi einnig leikgerð og lék ævintýrin Gói og eldfærin og Gói og baunagrasið sem sýnd voru í Borgarleikhúsinu.

Í Þjóðleikhúsinu hefur Gói meðal annars leikið í Nashyrningunum, Shakespeare verður ástfanginn, Jólaboðinu, Einræðisherranum, Jónsmessunæturdraumi, Loddaranum, Risaeðlunum, Djöflaeyjunni, Húsinu, Óþelló, Í hjarta Hróa hattar og Sporvagninum Girnd.

Gói samdi fyrir Þjóðleikhúsið Fjarskaland og Slá í gegn, og leikstýrði síðarnefnda verki sem og Útsendingu. Auk þess leikstýrði hann Láru og Ljónsa eftir eigin handriti.

Gói var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik sinn í Loddaranum og Húsinu, og fyrir söng í Jónsmessunæturdraumi.

Gói samdi handrit og var umsjónarmaður Stundarinnar okkar á RÚV í nokkur ár. Guðjón hefur leikið í fjölda kvikmynda, þ.á.m. í myndunum um þá félaga Sveppa, Góa og Villa, Lofðu mér að falla og Svartur á leik. Nú síðast heillaði hann alla þjóðina upp úr skónum í hlutverki Einara í Verbúðinni á RÚV.

Gói er fæddur 1980 í Reykjavík en er stoltur Kópavogsbúi í dag.