Bæjarlistamaður Kópavogs 2023

Lilja Sigurðardóttir

Rithöfundur

Lilja Sigurðardóttir er landsmönnum góðkunn enda hafa glæpasögur hennar verið fastur liður í jólabókaflóðinu síðastliðin átta ár. Lilja starfaði lengst af við uppeldis- og menntamál svo og nytjaskrif því tengd en hefur verið rithöfundur að aðalatvinnu síðan 2015.

Fyrsta bók Lilju, glæpasagan Spor kom út hjá Bjarti árið 2009 og í kjölfarið kom skáldsagan Fyrirgefning árið 2010. Fyrsta leikrit Lilju Stóru Börnin var sviðsett af leikfélaginu Lab-Loki veturinn 2013-2014 við miklar vinsældir. Lilja hlaut Grímuna, íslensku sviðslistaverðlaunin, fyrir leikritið. Spennusagan Gildran kom út hjá Forlaginu árið 2015 og á eftir fylgdi Netið árið 2016 og Búrið árið 2017. Þessi þríleikur hefur notið alþjóðlegrar hylli með tilheyrandi útgáfu í fjölmörgum löndum. Pólitíska spennusagan Svik kom út árið 2018 og glæpasagan Helköld sól haustið 2019 og var hún byrjun á nýrri sagnaröð sem hélt áfram með bókunum Blóðrauður sjór, Náhvít jörð, Drepsvart hraun og Dauðadjúp sprunga.

Lilja hefur tvisvar sinnum hlotið Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin fyrir Búrið og Svik og því tvisvar verið tilnefnd til Glerlykilsins, norrænu glæpasagnaverðlaunanna. Lilja er einnig ein þriggja Íslendinga sem hafa fengið tilnefningu til Gullna Rýtingsins, einna virtustu glæpasagnaverðlauna heims, en hana hlaut hún fyrir Gildruna.

Lilja fæddist 1972 á Akranesi en ólst upp í Mexíkó, Svíþjóð, Spáni, Kópavogi og Reykjavík. Í dag er hún búsett í Kópavogi.