Bæjarlistamaður Kópavogs 2024

Kristofer Rodrgíuez Svönuson

Slagverksleikari

Kristofer Rodríguez Svönuson er slagverksleikari og tónskáld af íslenskum og kólumbískum uppruna. Hann er fæddur árið 1988 og ólst upp í Kópavogi þar sem hann býr enn í dag. Árið 2014 útskrifaðist Kristofer úr FÍH. Fyrir hönd skólans tók hann þátt í ýmsum verkefnum bæði innanlands og erlendis og ber þar helst að nefna þáttöku í Young Nordic Jazz Comets með hljómsveitinni Two Beat Dogs og verðlaun á Nótunni 2013 með hljómsveitinni Gaukshreiðrið. Kristofer hefur einnig stundam nám erlendis og ber þar helst að nefna slagverksnám á Kúbu undir leiðsögn David Lopez og í Kolumbíu undir leiðsögn Fabio Ortiz sem er af mörgum talinn fremsti slagverksleikari Suður Ameríku um þessar mundir. Segja má að Kristofer hafi alltaf haft mörg járn í eldinum en hann er bæði menntaður grunnskólakennari og hjúkrunarfræðingur og hefur starfað við bæði fögin með hléum síðustu ár. Kristofer hefur starfað með mörgu af helsta tónlistarfolki Íslands í jazz, heimstónlist og poppi og ber þar helst að nefna Mugison, KK, Hjálma, Cell7, Júníus Meyvant, Los Bomboneros, Lay Low, Tómas R. Einarsson, Stuðmenn, Sunnu Gunnlaugsdóttur, Skuggamyndir Frá Býsans, Ragnheiði Gröndal, SJS Big Band, Sigríði Thorlacius, Berndsen, Kristjönu Stefánsdóttur, Stórsveit Reykjavíkur, Kira Kira, Ingibjörgu Turchi og Soffíu Björg. Einnig hefur Kristofer spilað með erlendu tónlistarfólki og tónskáldum og ber þar helst að nefna Jack Steadman(Bombay Bicycle Club), Nighmares On Wax, Rob Simonsen og Robot Koch. Auk þess að taka virkan þátt í lagasmíðum hljómsveita sinna hefur Kristofer einnig samið tónlist sjálfur. Árið 2019 gaf hann út sýna fyrstu plötu Primo. Platan var gefin út af Lucky Records og var tilnefnd sem plata ársins í opnum flokki á íslensku tónlistarverðlaununum. Primo hefur hlotið mikið lof bæði á Íslandi sem og erlendis. Bandaríska útvarpsstöðin KEXP tók ástfóstur á Primo og var sérstaklega fjallað um hana í þáttunum Music That Matters og Song of the Day. Aðrar hljómsveitir sem Kristofer er virkur í hafa verið tilnefndar og unnið fjölda verðlauna fyrir útgáfur sínar. Um þessar mundir er Kristofer að vinna að nýrri plötu og meðfylgjandi teiknimyndaseríu.