Verið velkomin í fjölskyldustund kl. 13-15 í Gerðarsafni. Brynhildur Kristinsdóttir, myndlistarmaður leiðir smiðju þar sem unnin verða þrívíð verk undir áhrifum frá Gerði Helgadóttur.
Í smiðjunni gefst fjölskyldum tækifæri til að búa til litla skúlptúra úr við, vír, garni, trépinnum og pappír. Unnið verður út frá þrívíðum verkum Gerðar og leikið með form, línur og fleti. Ímyndunaraflinu verður gefinn laus taumur þannig að „allt og hvaðeina“ geti gerst, hver veit nema fletir og form breytist í tungl, plánetur eða sólir*.
Smiðjan er opin öllum og er þátttaka gestum að kostnaðarlausu.
Brynhildur Kristinsdóttir er myndlistarmaður og kennari. Auk þess að starfa við eigin myndsköpun hefur Brynhildur kennt myndlist og smíðar og átt í samstarfi við ýmsa listamenn, gert leikmyndir og búninga fyrir gjörninga og dans. Brynhildur hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum.
*„Allt og hvaðeina“ er titill á þríleik eftir dulspekinginn Gurdjieff, en Gerður iðkaði hugrækt eftir forskrift Gurdjieffs og hafði það mikil áhrif á listsköpun hennar.