Sviðslistahópurinn GMT samanstendur af Önnu Róshildi, Bjarteyju Elínu, Björgu Steinunni og Ingu Steinunni. Skammstöfunin stendur fyrir ,,gera mig til“ og er vinsæl meðal ungmenna sem senda gjarnan á hvort annað: gmt? og bjóða þar með hvor annarri í ritúal, viðburðinn á undan viðburðinum. Hópurinn tók viðtöl við ungmenni og skoðar mismunandi vinkla á stelpumenningu og spyr hvort hún geti verið valdeflandi eða kúgandi eða bæði í senn.
Í innsetningu hópsins má finna viðtöl við unglingsstelpur um daglegar hefðir þeirra þegar kemur að því að gera sig til, mála sig og velja föt fyrir annaðhvort daginn eða viðburði. Myndbandsverkið leyfir áhorfandanum að sökkva sér ofan í líf þessara unglingsstelpna og velta um leið fyrir sér eigin unglingsárum. GMT litu sömuleiðis til baka á þeira eigin unglinsár, deila dagbókarfærslum frá þeim tíma til að minna sig á og græða unglingstúlkuna sem enn býr innra með þeim – sem er fyrirlitin af flestum, sérstaklega sér sjálfri.