Verið velkomin á erindi Guðrúnar Elsu Bragadóttur miðvikudaginn 26. mars kl. 12.15 í Gerðarsafni.
Guðrún Elsa Bragadóttir er lektor í fræðigreinum kvikmyndalistar við kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands. Guðrún Elsa er kvikmynda- og bókmenntafræðingur, fædd árið 1986. Hún hlaut meistaragráðu frá SUNY Buffalo árið 2016 og doktorsgráðu frá sama skóla árið 2021, en doktorsritgerð hennar fjallaði um hinsegin kvenleika, árásargirni og húmor í kvikmyndum og annarri listsköpun. Þar áður lærði hún bókmennta- og kvikmyndafræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan BA prófi árið 2011 og MA prófi árið 2013. Síðan árið 2017 hefur hún kennt kvikmyndafræði í Tækniskólanum og Háskóla Íslands, en frá og með haustinu 2022 hefur hún starfað sem aðjúnkt og fagstjóri fræða við Kvikmyndalistadeild Listaháskóla Íslands. Auk kennslu hefur hún starfað sem kvikmyndagagnrýnandi, flutt erindi á innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum og birt greinar í íslenskum og erlendum fræðiritum, meðal annars um stöðu kvenna í íslenskri kvikmyndagerð í bókinni Women in the International Film Industry: Policy, Practice and Power (Palgrave Macmillan, 2020).
Yfirfull af lífi feta verkin sig í kring um sjálf listafólksins á sýningunni sem er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands 2025.
Manneskjurnar í sýningunni standa berskjaldaðar frammi fyrir áhorfendum. Fólkið býður okkur að koma nær, stara á sig. En þau stara líka til baka, eru síður en svo valdalaus viðföng ljósmyndarans heldur aðalleikararnir í sinni sögu. Við erum velkomin en höfum stigið inn á þeirra yfirráðasvæði. Verkin eru róttæk hvísl og við þurfum að koma inn fyrir til að heyra í óeirðinni. Hún býr í persónulegum frásögnum, sögum heimsins sem sagðar eru frá einstöku sjónarhorni hvers skapara.
Ljósmyndamiðillinn er í aðalhlutverki á sýningunni en ófullkomleiki einkennir margar myndanna þar sem úthugsaðri myndbyggingu og tæknilegri fullkomnun er kastað á glæ til að nálgast einlægni, til að komast nærri lífinu. Hráleikanum er beitt til að fá okkur til að sjá út frá tilfinningalegri vídd, til að sýna okkur orku, tráma, kaos og drama lífsins en líka húmorinn og uppátækjasemina. Hefðbundnar reglur ljósmyndamiðilsins eru brotnar í fölskvalausum óði til miðilsins. Hér er að finna mikla fegurð en þetta er ekki fegurð fagurbókmennta og landslagsmálverks, hér eru drunur og pönktextar, dagbókarfærslur og opin hjörtu, líkamsvessar og berskjöldun sem í ofurmjúkri viðkvæmni sinni verður óbrjótanleg.
Hádegiserindið er liður í viðburðaröðinni Menning á miðvikudögum sem er styrkt af menningar og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar.