Lagahöfundurinn og söngkonan Klara Elias hefur átt kaflaskiptan feril; fyrst með stúlknabandinu Nylon, svo í Los Angeles með Charlies og nú sem sólólistamaður hér heima. Tónlist hennar hefur verið flutt af popplistamönnum um allan heim auk þess sem lög hennar hafa hljómað í sjónvarpsþáttum á borð við Shameless, Selling Sunset , Love Island og Love is blind.
Söngvaskáld er röð innilegra tónleika þar sem söngvaskáld spila lög sín og segja frá tilurð laganna. Á Íslandi er að finna gífurlegt magn hæfileikaríkra tónlistarmanna sem semja og spila sín eigin lög, í öllum mögulegum tónlistarstefnum. Þessi nýja tónleikaröð mun beina athygli að þessum listamönnum, varpa ljósi á margvíslegar aðferðir listamanna við lagasmíðar og gefa þjóðþekktum lögum meiri dýpt sem fylgir því að heyra sögur af tilurð þeirra.