Verið velkomin á erindi Sigrúnar Hrólfsdóttur í Gerðarsafni, Þræðing – Tiplað um sögu íslenskrar textíllistar, laugardaginn 10. maí kl. 15:00. Sigrún Hrólfsdóttir fjallar um verk Guðrúnar Bergsdóttur í samhengi við grein Sigrúnar sem birtist í nýjasta tölublaði tímaritsins Myndlist á Íslandi: Þræðing – Tiplað um sögu íslenskrar textíllistar. Þar skrifar Sigrún að textíll sé miðlægur þáttur í íslenskri myndlistarsögu, frá landnámi til dagsins í dag.
Sigrún Hrólfsdóttir er myndlistarmaður sem vinnur með margvíslega miðla, málverk, teikningu, innsetningar og gjörningalist, sem fjalla um sýnileg og ósýnileg öfl í heiminum. Hún hefur sýnt í öllum helstu söfnum og sýningarstöðum hér heima og víða erlendis, á eigin vegum og ásamt Gjörningaklúbbnum / The Icelandic Love Corporation, sem starfaði með upprunalegum meðlimum frá 1996-2016. Verk hennar er að finna í opinberum söfnum og einkasöfnum. Á árunum 2021-2023 gegndi hún rannsóknarstöðu við Listasafn Reykjavíkur þar sem hún stýrði yfirlitssýningu á verkum Hildar Hákonardóttur (1938), Rauður þráður á Kjarvalsstöðum. Sigrún er einnig höfundur bókar um ævistarf Hildar, afrakstur rannsóknarverkefnis um hlut kvenna í íslenskri myndlist innan Listasafns Reykjavíkur. Sigrún hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2024 fyrir þessa sýningu. Á árunum 2016-2021 var Sigrún deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands og kennir nú við skólann sem stundakennari. Hún lærði myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Pratt University, New York og er með BA og MA gráðu í listfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Sigrún Hrólfsdóttir býr og starfar á Íslandi og vinnustofa hennar er við Grandagarð í Reykjavík.