Arndís Þórarinsdóttir, Brynhildur Þórarinsdóttir og Gunnar Theodór Eggertsson verða gestir Helgu Birgisdóttur í unglingabókaspjalli Bókasafns Kópavogs.
Þau lesa úr glænýjum skáldsögum sínum og taka þátt í líflegum umræðum um bækurnar sem eru Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur, Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur og Álfareiðin eftir Gunnar Theodór Eggertsson.
Boðið verður upp á smákökur, kakó og notalega stemningu. Aðgangur ókeypis og öll hjartanlega velkomin meðan húsrúm leyfir.
Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur
Sólgos er spennandi og áhrifarík unglingabók um samfélag þar sem allar reglurnar hafa horfið á einu bretti og ógnin er orðin helsti gjaldmiðillinn. Mitt í upplausninni má þó finna samstöðu, samkennd og heitar tilfinningar.
Silfurgengið eftir Brynhildi Þórarinsdóttur
Sirrýlei ætlar að halda gott 15 ára afmælispartí fyrir vini sína. Foreldrar hennar verða í útlöndum og planið er alveg skothelt. En smám saman flækjast málin, meira að segja amma hennar klikkar með því að gefa henni eldgamla nælu í staðinn fyrir flottu úlpuna sem hún óskaði sér. Sirrýlei á erfitt með að halda kúlinu gagnvart vinum sínum þegar saga nælunnar og fyrri eigenda hennar, Silfurgengisins, nær tökum á henni. Bestu vinkonur hennar botna ekkert í henni og ekki batnar það þegar Sirrýlei velur nördalegasta áfangann í skólanum og lendir þar í hópi með stórundarlegum krökkum, meðal annars nýja stráknum með skrýtna nafnið og skyrhárið! Silfurgengið er grípandi saga um vináttu og óvænt örlög.
Álfareiðin eftir Gunnar Theodór Eggertsson
Menntskælingurinn Líneik er spennt að búa til hlaðvarpsþátt í valáfanga í fjölmiðlafræði en þykir alveg glatað að hann eigi að vera um álfa. Og ekki nóg með það heldur neyðist hún til að vinna í hóp og situr uppi með bæði skrýtnu stelpuna og mesta slugsann í bekknum. Perla og Jónki leyna þó á sér og fyrr en varir eru þau búin að grafa upp dularfullt þorp á Suðurlandi sem tengist álfum og virðist eiga sér blóðuga sögu. Þegar þríeykið mætir á staðinn rennur fljótt upp fyrir þeim að þorpsbúarnir hafa margt og miður fallegt að fela – og það getur reynst stórhættulegt að spyrja rangra spurninga.



















