Ný aðföng 2019

Árið 2019 voru keypt verk eftir fjóra samtímalistamenn en verkin höfðu öll verið á sýningum í Gerðarsafni. Verkin eru eftir Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur, Harald Jónsson, Katrínu Elvarsdóttur og Sigurð Guðjónsson. 

Skipulag (2018), lágmynd eftir Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur, sem unnin var fyrir sýninguna SKÚLPTÚR/SKÚLPTÚR árið 2018.

Í lágmynd sem liggur endilöng meðfram veggnum tekst Áslaug á við óhlutbundin form og myndbyggingu sem hún ýmist grefur í efnið eða byggir upp. Verkið vísar í einhverskonar kerfi þar sem eitt leiðir af öðru, formin renna saman eftir brautum í lagskiptingu lágmyndarinnar og minna á vélarparta eða tákn. Verkið er samanstett úr gólfdúk og tréplötum, það skapa hugrenningartengsl við borgarskipulag, með tilheyrandi hæðarlögum og flötum sem tákna ýmist byggingar eða opin svæði. Gólfdúkurinn er náttúrusteinslíki og vísar ýmist í listasöguna til klassískrar höggmyndagerðar eða í nútíma húsagerð.

Litrof (2017) eftir Harald Jónsson, fjórtán mynda ljósmyndaröð, sem sýnd var á sýningunni Líkamleiki í ársbyrjun 2018.

Verk Haraldar Jónssonar Litrof er leikur að samspili ljóss og lita jafnframt því að vísa í ljósmyndina sem þrívíðan hlut. Verkið varð til á ómeðvitaðan hátt þar sem ljós féll í gegnum litfilmur á pappírsskúlptúr sem listamaðurinn vann að. Ljósmyndaverkið er því umbreyttur skúlptúr þar sem þrívíðir eiginleikar skúlptúrsins blekkja augað til að halda að ljósmyndin sjálf sé skorin og brotin. Verkið vekur athygli á ljósmyndinni sem miðli ljóss, lita og skugga og vísar til þess að þó að ljósmyndaflöturinn sé tvívíður þá er ljósmyndin sjálf þrívíður hlutur.

Horfið sumar (2013), þrjú verk úr ljósmyndaröð eftir Katrínu Elvarsdóttur, sem voru á sýningunni Líkamleiki í ársbyrjun 2018.

Í verki Katrínar Elvarsdóttur Horfið sumar frá 2013 tekur samspil manns og umhverfis sér bólfestu í umhverfi sem er í senn náttúrulegt og manngert. Lífræn form og hringir endurtaka sig í verkinu sem og á milli verka í sýningunni þar sem skilin milli náttúru og manns verða óljós.

Tape (2016), vídeóverk eftir Sigurð Guðjónsson, sem var sýnt á sýningunni Ó, hve hljótt í ársbyrjun 2019.

Í verkinu Tape sýnir Sigurður okkur aftur nýlega en útrunna tækni. Þetta er nærmynd af hljóðsnældu – kassettu – þar sem sem við sjáum hljóðbandið vindast af annarri spólunni yfir á hina. Séð svona í nærmynd fær þetta vélræna ferli meiri vídd. Hugurinn gæti hvarflað til leikrits eftir Beckett, til „mix-teipanna“ sem voru „playlistar“ níunda áratugarins eða til allrar neðanjarðarútgáfunnar sem tónlistarmenn og skáld þess áratugar létu frá sér á þessum nýja og ódýra miðli. Við getum horft á hreyfinguna í myndinni og séð þar líkindi við sporbauga plánetanna um Sól eða túlkað hana sem erfitt dæmi í hornafræði. Dæmið er óleysanlegt vegna þess að það er vélrænt en ófyrirsjáanlegt – og það er einmitt þetta sem heillar okkur. Við erum komin á öld hins stafræna þar sem allt má afrita án þess að nokkru smáatriði skeiki og þá greinum við fegurðina í ófullkomleika eldri tæknilausna: Í vínilplötum og segulböndum.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

14
sep
Salurinn
20:30

Himinn & jörð

14
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

14
sep
Náttúrufræðistofa Kópavogs
13:00

Haustkórónur með ÞYKJÓ

16
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

17
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

18
sep
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

18
sep
Bókasafn Kópavogs
16:00

Bókmenntaklúbburinn Hananú!

18
sep
Gerðarsafn
12:15

Hljóðvefur um Hamskipti

21
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Friðardúfur á friðardegi

21
sep
Salurinn
20:00

Söngkvöld með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Vísindakakó

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR