Gói er bæjarlistamaður Kópavogs 2022

Leikarinn Guðjón Davíð Karlsson er Bæjarlistamaður Kópavogs 2022. Valið var tilkynnt í Gerðarsafni fimmtudaginn 19. maí.  Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi bauð gesti velkomna og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs kynnti tilnefningu bæjarlistamanns. Páll Marís Pálsson varaformaður lista- og menningarráðs færði Guðjóni svo viðurkenningarskjal og blómvönd.

„Við hjá Kópavogsbæ erum afar stolt af vali á bæjarlistamanni Kópavogs 2022, listamanninum, Guðjón Davíð Karlssyni, sem er vel að titlinum kominn. Hann er ekki einungis einn af eftirlætis leikurum þjóðarinnar heldur hefur hann skipað sér sess sem handritshöfundur fyrir leikhús og sjónvarp og leikstýrt með eftirminnilegum hætti leikritum og sjónvarpsþáttum. Hann hefur verið fastráðinn við stærstu leikhús þjóðarinnar, heillaði ungmenni landsins þegar hann sá um Stundina okkar og mun nú deila hæfileikum sínum með Kópavogsbúum á komandi mánuðum. Við hlökkum innilega til samstarfsins með Guðjóni Davíð næsta árið,“ sagði Soffía Karlsdóttir forstöðumaður menningarmála í Kópavogi um valið á bæjarlistamanni 2022.

Bæjarlistamaður Kópavogs skal vera tilbúinn til að vinna með Kópavogsbæ að því að efla áhuga á list og listsköpun í bænum og taka þátt í viðburðum bæjarins með það að leiðarljósi. Styrkupphæð bæjarlistamanns er 1,5 milljónir króna.  Guðjón Davíð Karlsson tekur við keflinu af Sunnu Gunnlaugsdóttur tónlistarmanni.

Guðjón Davíð sagði af þessu tilefni: „Ég var virkilega undrandi þegar ég fékk símtalið og mér boðið að vera bæjarlistamaður Kópavogs. Undrandi og um leið ótrúlega stoltur, ánægður, upp með mér og ekki síst fullur þakklætis. Ég er gríðarlega spenntur að fá að vinna með Kópavogsbæ að einhverju einstaklega sniðugu og skemmtilegu verkefni. Menningarlífið er blómlegt í Kópavogi og nú er bara að setja sér það markmið að efla það enn frekar á komandi árum. Takk Kópavogur fyrir þessa viðurkenningu.“

Nánar um Guðjón Davíð Karlsson

Guðjón Davíð Karlsson leikari er landsmönnum góðkunnur. Guðjón Davíð eða Gói útskrifaðist úr leiklistardeild LHÍ 2005. Hann hefur leikið í fjölda verkefna í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum, samið leikrit og handrit sjónvarpsmynda og leikstýrt bæði í leikhúsi og sjónvarpi.

Gói var fastráðinn við Leikfélag Akureyrar strax eftir útskrift,var ráðinn til Borgarleikhússins árið 2008 og fór svo til Þjóðleikhússins árið 2015.

Hjá LA fór Gói með fjölmörg burðarhlutverk og lék m. a. Markó í Pakkinu á móti, Bjarna í Fullkomnu Brúðkaupi, Baldur í Litlu hryllingsbúðinni, Díma í Maríubjöllunni, Ralf í Herra Kolbert, Davey í Svörtum ketti og ýmis hlutverk í Ökutímum.

Gói lék mörg burðarhlutverk í Borgarleikhúsinu, m.a. í Fló á skinni, Fólkinu í blokkinni, Söngvaseið, Heima er best, Gauragangur, Fólkinu í kjallaranum, Ofviðrinu, Nei, ráðherra, Kirsuberjagarðinum, Eldhafi, Mary Poppins, Á sama tíma að ári, Beint í æð, Skálmöld og Er ekki nóg að elska. Guðjón samdi einnig leikgerð og lék ævintýrin Gói og eldfærin og Gói og baunagrasið sem sýnd voru í Borgarleikhúsinu.

Í Þjóðleikhúsinu hefur Gói meðal annars leikið í Nashyrningunum, Shakespeare verður ástfanginn, Jólaboðinu, Einræðisherranum, Jónsmessunæturdraumi, Loddaranum, Risaeðlunum, Djöflaeyjunni, Húsinu, Óþelló, Í hjarta Hróa hattar og Sporvagninum Girnd.

Gói samdi fyrir Þjóðleikhúsið Fjarskaland og Slá í gegn, og leikstýrði síðarnefnda verki sem og Útsendingu. Auk þess leikstýrði hann Láru og Ljónsa eftir eigin handriti.

Gói var tilnefndur til Grímunnar fyrir leik sinn í Loddaranum og Húsinu, og fyrir söng í Jónsmessunæturdraumi.

Gói samdi handrit og var umsjónarmaður Stundarinnar okkar á RÚV í nokkur ár. Guðjón hefur leikið í fjölda kvikmynda, þ.á.m. í myndunum um þá félaga Sveppa, Góa og Villa, Lofðu mér að falla og Svartur á leik. Nú síðast heillaði hann alla þjóðina upp úr skónum í hlutverki Einara í Verbúðinni á RÚV.

Gói er fæddur 1980 í Reykjavík en er stoltur Kópavogsbúi í dag.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

02
sep
07
sep
Bókasafn Kópavogs
08:00

Bókamarkaður

07
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

07
sep
Bókasafn Kópavogs
11:30

Lesið fyrir hunda

07
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Úkraínsk útsaumssmiðja

07
sep
Náttúrufræðistofa Kópavogs
13:00

Heilsum hausti

07
sep
Gerðarsafn
14:00

Listasmiðja með Helgu Páleyju

08
sep
Salurinn
15:00

Svanasöngur Schuberts

09
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

10
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

11
sep
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

11
sep
Menning í Kópavogi
17:00

Pönkganga með dr. Gunna

12
sep
Salurinn

Tvíhöfði | Af fingrum fram í 15 ár

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR