Gói
Gói

Feginn að ég valdi leiklistina

Í september 2022 mun Bæjarllistamaður Kópavogs taka á móti börnum úr 4. bekk í grunnskólum Kópavogs á Bókasafni Kópavogs og spjalla við þau um sköpun út frá ólíkum sjónarhóli.

Flest eru vel með á nótunum þegar leikarann, leikskáldið og leikstjórann Guðjón Davíð Karlsson ber á góma. Frá því hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 2005 hefur hann komið við á nánast öllum sviðum íslensks leikhússlífs, leikið í öllum stóru atvinnuleikhúsunum, ófáum áramótaskaupum, kvikmyndum, skrifað leikrit fyrir börn sem byggja á ástsælum ævintýrum og leitt Stundina okkar svo eitthvað sé nefnt. Fyrir þau sem enn eru ekki viss um hvern er rætt þá er hann betur þekktur sem Gói og er bæjarlistamaður Kópavogs árið 2022.

Gói er fæddur í Reykjavík en hefur búið í Kópavogi í sextán ár. „Ég og Inga konan mín keyptum okkar fyrstu íbúð í Kópavogi árið 2006 ef ég man rétt og höfum ekki viljað vera neins staðar annars staðar,“ segir Gói aðspurður um tengsl sín við Kópavog sem byrjuðu þó mun fyrr. „Afi minn og amma bjuggu í Snælandshverfinu frá því 1982 svo ég var heimavanur og þegar kom upp tækifæri til að kaupa húsið þeirra árið 2010 þá stukkum við á það enda staðsetningin algjör draumur, frábært útivistarsvæði og svo erum við alveg ótrúlega ánægð með Snælandsskóla og Furugrund. Fyrir ári síðan fluttum við svo aftur og þá kom ekki neitt annað til greina en að vera í sama hverfi.“

Hann tekur hiklaust undir hin fleygu orð að það sé gott að búa í Kópavogi. „Hér líður okkur vel. Eigum dásamlega granna, börnin okkar eiga góða vini og þá er nú ekki hægt að biðja um meira.“

Hann segir sinn uppáhaldsstað í Kópavogi vera garðinn sinn. „Allavega akkúrat þessa dagana en svo er ég svo heppinn að vera í návígi við Fossvogsdalinn Kópavogsmegin og það svæði er líka í miklu uppáhaldi.“

Mikill heiður að vera bæjarlistamaður

Gói segist hafa verið alveg óundirbúinn þegar hann fékk símtal um að hann hefði verið valinn bæjarlistamaður Kópavogs 2022. „Það var alveg ótrúlega mikill heiður. Ég satt að segja átti ekki til orð þegar mér var sagt að bærinn vildi veita mér þessa miklu viðurkenningu. Ég sagði að sjálfsögðu JÁ og er gríðarlega stoltur og ánægður.“ Hann segir viðurkenningar af þessum toga hafa mikla merkingu fyrir listamenn. „Þetta er náttúrulega fyrst og fremst mikill heiður og klapp á bakið og hvatning til þess að halda áfram og reyna að skapa og leggja eitthvað af mörkum.“ Í reglum bæjarins segir að bæjarlistamaður Kópavogs skuli vera tilbúinn til að vinna með Kópavogsbæ að því að efla áhuga á list og listsköpun í bænum og taka þátt í viðburðum bæjarins með það að leiðarljósi. Gói er mjög reiðubúinn til að takast það hlutverk á hendur og hefur þegar lagt sitt af mörkum. Skemmst er þess að minnast þegar hann snaraði fram 17. júní lagi Kópavogsbæjar í sumar en það var í fyrsta sinn sem samið er lag í tilefni hátíðarhaldanna í Kópavogi. Gói samdi lag og texta, innblásinn af þeirri góðu stemningu sem ríkir í bænum 17. júní. Hann fékk svo börn úr skólakór Kársnesskóla til liðs við sig við flutninginn á laginu. Í september mun Gói svo taka á móti börnum úr 4. bekk í grunnskólum Kópavogs á Bókasafni Kópavogs og spjalla við þau um sköpun út frá ólíkum sjónarhóli.

Menningarhúsin einstakar gersemar

Hann segist sækja menningarhúsin reglulega enda alltaf mikið um að vera þar. „Þau eru einstakar gersemar, þessi menningarhús. Salurinn er í miklu uppáhaldi, dagskráin alltaf flott og húsið glæsilegt. Þar er frábær hljómburður og dásamlegt að vera þar sem áhorfandi en ekki síður sem flytjandi. Svo er alltaf gaman að koma í Gerðarsafn og njóta þess sem þar er boðið upp á hverju sinni. Við krakkarnir förum oft á bókasafnið og þá er alltaf spennandi að taka rúnt um náttúrufræðistofu í leiðinni.“

Gerir helst það sem honum þykir skemmtilegt

Gói hefur sýnt það og sannað undanfarin ár að hann er jafnvígur á að vinna verk við hæfi barna og fullorðinna svo ekki er ólíklegt að hann láti til sín taka á báðum vígstöðvum. Hann segir engan mun á því að vinna verk fyrir börn og fullorðna. „Þegar ég geri efni fyrir börn hvort sem er fyrir svið eða sjónvarp hef ég nú yfirleitt hugsað jafn mikið um fullorðna fólkið. Mér finnst skipta svo miklu máli að allir hafi gaman af verkinu saman því það skapar umræðu og minningar. Þannig að ég set mig ekkert í neinar sérstakar stellingar þegar ég geri eitthvað fyrir börn.“

„Ég reyni yfirleitt alltaf að gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt. Og allt sem maður gerir þroskar mann og gerir mann betri.“

„Og allt sem maður gerir þroskar mann og gerir mann betri. Það er dásamlegt að vinna með verk sem maður hefur sjálfur skrifað. Þá get ég bara breytt því sem mig langar að breyta og þarf ekki að bera það undir neinn annan.“

Stefnir á að verða forseti

Leikarar eru oft spurðir hvort þeir eigi einhver draumaverkefni eða hlutverk. Gói segist ekki vera upptekinn af því að hugsa um slíkt. „Ég er nú svo lánsamur að vera alltaf að vinna að einhverju spennandi þannig að þau verkefni sem ég er að vinna hverju sinni eru draumaverkefni. Ég elska vinnuna mína og hún er mitt áhugamál og mér finnst líka bæði gaman og nauðsynlegt að skrifa.“ Aðspurður um önnur áhugamál segist hann hafa ánægju af ferðalögum. „Ég nýt þess að ferðast með fjölskyldunni minni um landið. Fara í útilegu. Svo finnst mér alveg rosalega gaman að elda góðan mat. Það er mikið áhugamál hjá mér.“ Hefði eitthvað annað starf freistað hans hefði það mögulega snúið að eldamennsku. „Ef ég væri ekki í leiklist þá hefði ég alveg verið til í að vera læknir eða kokkur. Svo stefni ég á að verða forseti Íslands og ef einhver skorar á mig að verða bæjarstjóri er ég alveg til í að skoða það þó ég hafi reyndar aldrei hugleitt beint að fara út í pólitík. En ég er samt ofboðslega feginn að ég valdi leiklistina.“

Og að vanda er margt á döfinni hjá Góa. „Ég er að vinna í Þjóðleikhúsinu og þar er sprúðlandi flott leikár í uppsiglingu. Núna eftir sumarfrí liggur fyrir að taka upp og ljúka æfingum á nýjum söngleik, Sem á himni, sem verður frumsýndur í september. Svo er ég að skemmta út um hvippinn og hvappinn og svo eru framundan dásamlega skemmtileg verkefni með Kópavogsbæ. Ég hlakka sérstaklega mikið til þess,“ segir bæjarlistamaðurinn Gói að lokum.


Kennurum í 4. bekk í grunnskólum Kópavogs er bent á að hafa samband í meko@kopavogur.is til að bóka tíma fyrir bekkinn með Góa.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

21
maí
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

21
maí
Bókasafn Kópavogs
17:00

Sumarlestrargleði

22
maí
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

22
maí
Bókasafn Kópavogs
12:15

Leslyndi með Lilju Sigurðardóttur

23
maí
Bókasafn Kópavogs
17:00

Sagnaganga: Fantasíur og hrollvekjur í Kópavogi

24
maí
Salurinn
20:00

HILDUR

27
maí
01
jún
Bókasafn Kópavogs
08:00

Plöntuskiptimarkaður

28
maí
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

29
maí
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

30
maí
Salurinn
20:00

Davíðsson

01
jún
Bókasafn Kópavogs
12:00

Plöntuskiptidagur Garðyrkjufélags Íslands

02
jún
16
jún
Gerðarsafn

Hér á ég heima

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR