Hátíðarstjórar 17. júní

Gleðigjafarnir Eva Ruza og Saga Garðarsdóttir verða kynnar á 17. júní hátíðarhöldunum í Kópavogi ásamt þeim Hjálmari Erni Jóhannssyni og Snorra Helgasyni. Að hitta þær og spjalla er eins og að fá vítamínsprautu af gleði, hlátri og óvæntum uppákomum. Meira að segja sólin braust fram þegar við settumst niður og ræddum hátíðarhöldin sem framundan eru. 

Þegar við ræðum 17. júní og þá mynd sem kemur upp í hugann á þeim eru þær fljótar til svars. Hæ hó og jibbí jey, snuddusleikjóar sem enginn klárar, blöðrur, löng biðröð í hoppukastalann og veltibílinn. ,,Svo er það veðurkvíðinn” segir Eva. ,,Það byrja allir að fylgjast með veðurspánni tíu dögum fyrir hátíðarhöldin – sem er svo ekkert að marka. Svo er kannski fimm stiga hiti en allir mæta eins og það sé fimmtán stiga hiti” bætir hún við. 

,,Já andlitsmálning” bætir Saga allt í einu við. ,,Það er alltaf röð í hana líka”. 

Blaðamaður áttar sig fljótt á að hann hefur enga stjórn á þessum samræðum enda tvær frábærar og skemmtilegar konur með óstöðvandi lífsgleði og sprúðlandi sköpunarkraft. Svo hér er bara best að skjóta inn einni og einni spurningu og hlusta. 

Skemmtilegasta minningin? 

,,Mamma klæddi okkur alltaf í spariföt eins og við værum að fara í galakvöld, kjólar og fínerí” segir Eva. „Svo fékk hún smá áfall þegar hún sá mig fara út með mín börn. „Ætlarðu ekki að setja þau í spariföt“, spurði hún mig. „Nei mamma það er rigning“, svaraði ég og þar með var hefðin brotin”. 

,,Amma mín var alltaf í þjóðbúningi og við vorum sett í skrýtin spariföt, mín föt voru smá þjóðleg” segir Saga. ,,Svo setti ég dóttur mína í matrósaföt, mér fannst það vera svona í fánalitunum og smá þjóðlegt.  Mínar minningar eru hátíðleg athöfn, að fara út úr húsi, fínt klædd. Maður vill vera á labbi, hitta samfélaga sína og nikka og bjóða góðan daginn.  

Hey, svo man ég líka eftir þessu ótrúlega, manstu eftir gúmmídekkjunum á jörðinni og þú stikaðir í gegnum þau? Það var svona spýta á milli og maður gekk skringilega… ömurlegt tæki” segir Saga með áherslu og skakklappast um og sýnir okkur. 

Eva var fljót til svars: ,,Ohhh þegar var ekki svona hjá okkur í Kópavogi. Við vorum bara með stultur” og svo hlæja þær báðar. 

Eva bætir við að Rútstún sé hennar 17. júní ,,Það er bara inni í mér, það er minn þjóðhátíðardagur”. 

,,Ég bý djúpt í Vesturbænum” segir Saga „og hafði aldrei verið annars staðar en dóttir mín hefur bara upplifað Kópavog. Hennar upplifun er þar því við foreldrarnir erum alltaf að skemmta þar”. 
Eva grípur orðið um leið og Saga dregur inn andann. ,,Kópavogur er náttúrulega nafli alheimsins, allavega á 17. júní”. 

Undirbúningur fyrir 17. júní 

,,Vera bara nógu barnaleg, sem við Saga eigum ekki erfitt með” segir Eva hlæjandi en bætir svo við á alvarlegri nótum ,,Það er ótrúlega mikilvægt að hafa í huga að við erum að skemmta krökkum. Maður man þegar maður var lítill, þá var þetta upplifun og ef krakkar eru sáttir við það sem er að gerast á sviðinu þá eru allir glaðir. Maður undirbýr sig öðruvísi fyrir 17. júní en fyrir annað því það er þessi áhersla”. 

Hún segir að maður þurfi að hugsa um hvað maður vill gera til að ná til krakkanna. ,,Mín börn eru nýfermd. Og ég þarf að átta mig á hvað lítil börn eru að hlusta á í dag þá er gott að systur mínar eiga 75 börn sem ég get leitað til” segir hún kankvís. 

Saga segist fá útrás fyrir að syngja á 17. júní. ,,Venjulega er ég að tala rosalega hratt og Snorri að fylgja mér, svo bara byrja ég að syngja og bíð ekkert eftir því að hann telji í. Svo ég er alltaf að einbeita mér að því að hlusta á Snorra og hlusta á krakkana. Mér hefur gengið vel að hlusta á krakkana”. 

,,Snorri þarf kannski að venja sig á að hlusta á þig” skýtur Eva inn í og þær hlæja. ,,Við Hjálmar bjuggum til dans og hann féll í kramið hér um árið. Það er því aldrei að vita nema við notum hann aftur á 17. júní”. Saga segir að Snorri geti ekki lært dans og þá svarar Eva að Hjálmar kunni bara þennan dans og hún ætli ekki að leggja á hann að læra annan. 

Risarnir 

,,Ég keypti mér æðislegan gulan sumarkjól í Rauða krossinum fyrir hátíðahöldin einu sinni” útskýrir Saga ,,en af því að ég er svo stór að þá passa oftast ekki gamlir hlutir á mig en þessi guli var flottur. Svo þegar ég segi velkomin á 17. júní í Kópavogi og breiði út faðminn” (hér stendur Saga upp og leikur atriðið fyrir okkur) ,,þá rifnaði kjóllinn utan af mér” – og nú hlæja þær sig máttlausar og Saga bætir við í hláturskasti að hún hafi verið  í Janusarfötum innan undir svo þetta slapp til. ,,Dóttir mín segir oft, manstu mamma þegar kjóllinn rifnaði? En ég er búin að láta stækka kjólinn og ætla að vera í honum í ár” segir hún með áherslu. 

,,Það hefur ekkert rifnað utan að mér hingað til” skýtur Eva inn í. 

,,Það verða tveir risar á 17. júní í Kópavogi” segir Saga og spyr Evu hve há hún sé. Eva svarar að hún sé 180 cm, Saga segist vera 184 cm. ,,Vá ég hélt þú værir hærri” segir Eva. ,,Já ég er eiginlega 184,5 cm en ég geri bara ráð fyrir að hafa aðeins minnkað. Spáðu hve ég er góð…” svo hlæja þær og mæla sig við hvor aðra. ,,Já, tvær langar konur leiða dagskrána í Kópavogi” bætir Eva svo við. 

Fumsamið lag 

,,Ég ætla að vera með frumsamið lag” segir Eva. ,,Frumsamið lag?” spyr Saga ,,gerirðu það oft? ,,Já mjög oft“ segir Eva. „Ég fæ að semja lagið og syngja og Hjálmar klappar bara fyrir mér og segir að þetta sé besta frammistaða mín sem hann hafi heyrt” segir hún og sýnir hvernig Hjálmar klappar fyrir henni. ,,Ég verð með playback, ekki eins og þú með undirleikara, mig vantar undirspil”. ,,Hey á næsta ári færð þú bara minn rauða kall og ég þinn” segir Saga ,, við getum skipst á litlum rauðum köllum” og svo hlæja þær að fíflaskapnum og leikrænum tilburðum hvorrar annarrar. 

,,Þetta er kannski ekki svona lag sem fólk fær á heilann” útskýrir Eva, „ekki eins og Atlantsolíu lagið sem sumir syngja. ,,Já það getur maður fengi á heilann” svarar Saga ,,dóttir mín fær ekki að heyra það, það gæti endað…..”  og svo skella þær aftur upp úr. 

Sumarið 

Þegar spurt er hvort við fáum sumar svarar Eva að bragði: ,,Já, auðvitað er að koma sumar. Við sitjum hér úti í níu stiga hita. Saga er í stuttbuxum en það gustar”. ,,Já, þetta er svona norræni vindurinn sem leikur um mann” svarar Saga að augabragði. 

,,Það mætti vera örlítið betra, ég viðurkenni alveg… bara það að sjá bláan himinn í dag þá var ég geðveikt glöð… svo fann ég mér bara skjól.. Það kemur sumar.. Þú getur haft það í Kópavogsblaðinu” segir Eva ákveðin. 

,,Þetta kemur en það er bara spurning hvernig” segir Saga og bætir við ,,Ég er sko nýkomin frá Mexikó og Ítalíu og ég veit hvað það er hægt að hafa það næs. Ég hef samanburðinn svona rosalega nálægt og þá er ég smá smeyk við það sem framundan er. En ég ætla í útilegu og ég ætla að vera í stuttbuxum sama hvort  ég fæ kvef, tek þetta bara á kassann”. 

,,Ég er bara að biðja um vorveður frá Köben” seir Eva. ,,Tveir tölustafir og þá er ég sátt”. 

,,Sumardagurinn fyrsti er kominn” segir Saga ,,og það kemur sumar, við fáum nokkra daga allavega”. 

Eitthvað að lokum? 

,,Já, Komið í sparifötum og ullarfötunum undir – just in case” svarar Saga. ,,Ef fólk er vel klætt þá er alltaf gaman, en ef fólki er kalt þá er allt hræðilegt”. 

,,Og við getum lofað að á báðum sviðum verða langar konur og litlir karlar” segja þær að endingu ,,og jafnvel sól”. 

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

16
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

17
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

18
sep
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

18
sep
Bókasafn Kópavogs
16:00

Bókmenntaklúbburinn Hananú!

18
sep
Gerðarsafn
12:15

Hljóðvefur um Hamskipti

21
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Friðardúfur á friðardegi

21
sep
Salurinn
20:00

Söngkvöld með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Vísindakakó

22
sep
Gerðarsafn
12:00

Gluggar Gerðar

23
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

24
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR