Af fingrum fram með Jóni Ólafs og gestum

FORSALA HAFIN!

Jón Ólafs snýr aftur með spjalltónleikaröðina sína, Af fingrum fram. Röðin hefur fyrir löngu fest sig í sessi hjá tónlistarunnendum landsins en Jón hefur á síðastliðnum fimmtán árum fengið til sín yfir 50 listamenn og hafa fleiri en 30.000 áhorfendur hrifist og hlegið með á þessum einstöku kvöldum Í Salnum.

Tryggðu þér miða með forsöluafslætti fyrir
10. ágúst 2023

Forsöluverð kr. 6.500
Miðaverð kr. 7.500


Tvíhöfði hafa skemmt þjóðinni um áraraðir á ljósvakamiðlunum og má segja að þeir hafi slegið alveg nýjan tón þegar þeir birtust landsmönnum í fyrsta sinn. Tvíhöfði er menningarfyrirbæri sem allir hafa skoðun á og nú heimsækja þeir Jón Ólafsson í fyrsta sinn. Áherslan verður lögð á tónlist þeirra Jóns & Sigurjóns en í gegnum tíðina hafa þeir bæði samið og flutt tónlist sem margir halda upp á. Helgi, persónulegi trúbadorinn, gæti komið við sögu og jafnvel Adolf Hitler.  Það er allt brjálað í bænum og allir stuði í!

Magnús & Jóhann fögnuðu fyrir skemmstu 50 ára starfsafmæli.  Þetta er líklega besti íslenski dúett allra tíma og lög þeirra félaga hafa fyrir löngu grafið sig djúpt í íslenska þjóðarsál.  Saman og í sitthvoru lagi eru þeir ábyrgir fyrir lögum eins og Álfar, Sail on, Söknuður, Blue Jean Queen, Yaketty Yak og Ást – svo örfá dæmi séu nefnd.  Tvísöngur félaganna mun óma um Salinn sem aldrei fyrr!

Jón Ólafsson hefur stýrt tónleikaröðinni Af fingrum fram um árabil og hefur loksins látið undan fjölda áskorana og verður nú nánast eigið viðfangsefni!  Hann hyggst þó ekki tala við sjálfan sig heldur mun Sóli Hólm, skemmtikrafturinn geðþekki, sjá um að spyrja Jón spjörunum úr.  Jón fagnaði fyrr á árinu sextugsafmæli sínu með glæsilegum afmælistónleikum í Eldborg. Hann hefur samið eitt og annað sem fólk kannast við og mætti þar nefna Tunglið mitt, Líf, Alelda, Sunnudagsmorgun og Flugvélar sem dæmi.

Söngkona Góss og Hjaltalín mætir enn og aftur í Salinn og tekur upp þráðinn frá því síðast. Sigríður Thorlacíus er ein ástsælasta söngkona landsins og er jafnvíg á hinar ýmsu tónlistarstefnur.  Hún heldur jafnmikið upp á Aravísur og gömul, frönsk Eurovisionlög og það verður fróðlegt að vita hvað hún tekur upp úr gullkistunni þegar hún heilsar upp á Jón Ólafsson.

Rétt eins og gestgjafinn fagnar Guðrún Gunnarsdóttir sextugsafmæli á þessu herrans ári og því ekkert nema við hæfi að hún mæti á heimaslóðir í Kópavogi og rifji upp farsælan söngferil sinn.  Guðrún hóf feril sinn með MK kvartettinum, fór svo yfir í vísnamúsíkina en hefur sungið allar tegundir rytmískar tónlistar fyrir landsmenn. Við þekkjum hana líka sem frábæra útvarpskonu og það er morgunljóst að það verður hlegið upp um alla veggi þegar hún mætir til leiks.

Guðmundur var unglingur þegar hann sló í gegn sem frábær gítarleikari og það tók hann ekki langan tíma að komast í fremstu röð íslenskra tónlistarmanna. Hann er jafnvígur á allar tegundir gítar,  flestar tónlistarstefnur og nú síðustu árin er hann meira að segja farinn að syngja eigið efni. Guðmundur er auðvitað vel þekktur fyrir blúsgítarleik sinn en hann hefur einnig skrifað verk fyrir sinfóníuhljómsveit og gefið út sólóplötur af ýmsum toga auk þess að vera líklega eftirsóttasti gítarleikari allra tíma á Íslandi. Það er því að nógu að taka hjá þeim félögum, Guðmundi Péturssyni & Jóni Ólafssyni, þetta kvöldið.

Það er sagt að söngvarar eins og Valdimar komi kannski fram á Íslandi á 50 ára fresti. Ekkert er staðfest í þeim efnum en kenningin er góð og vissulega er Valdimar ótrúlegur söngvari. Hann gæti látið einföldustu skátalög hljóma eins og djúpvitrustu tónlist væri sá gállinn á honum.  Undanfarin ár hafa fáir komist með tærnar þar sem hann hefur hælana auk þess sem hann hefur rekið nefið inn á leiklistarsviðið mörgum til mikillar ánægju.  Hugsanlega tekur hann með sér básúnuna en það er hljóðfæri sem hann spilar mæta vel á.

Eyþór Ingi er marghamur listamaður.  Hann er frábær leikari, stórkostlegur söngvari og óviðjafnanleg eftirherma.  Svo semur hann lög og spilar á hljóðfæri þannig að þetta er nánast ósanngjarnt.  Það er fengur af þessum Dalvíkingi sem ætlar að endurnýja kynnin við Jón Ólafsson í Salnum og víst er að gáskinn og glettnin munu reka grámygluna á braut og gestir fari gólandi í góðum gír til síns heima að lokinni vel heppnaðri kvöldstund.

Kristjana er merkileg tónlistarkona og hefur afrekað ansi margt á sínum góða ferli. Þetta hófst allt á Selfossi þar sem hún söng á sveitaböllunum með Labba í Mánum og fleiri góðum.  Svo menntaði hún sig í jazzsöng í Hollandi og hefur sinnt þeirri tónlistarstefnu ansi vel auk þess sem tónskáldið hefur tekið æ meira pláss eftir því sem árin líða. Hún hefur gert ansi góða hluti í leikhúsdeildinni á síðustu árum og samið tónlist fyrir hinar ýmsu sýningar auk þess að leika, spila og jafnvel tónlistarstýra í leiðinni.

Á upphafsárum Af fingrum fram var Páll Óskar Hjálmtýsson tíður gestur Jóns Ólafssonar og þeir hafa farið með sitt prógramm víða, m.a. til Danmerkur þar sem þeir fylltu fagran sal af góðu fólki.  Páll Óskar er listamaður á heimsmælikvarða og Íslendingar einfaldlega elska Palla sinn!  Hann er frábær söngvari og metnaðarfullur í list sinni eins og plötur hans og tónleikar bera vitni um. Allt fyrir ástina, Þú komst við hjartað í mér og lögin úr Rocky Horror eru dæmi um eitthvað sem gæti ratað inn á prógrammið þetta kvöld.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

08
sep
Salurinn
15:00

Svanasöngur Schuberts

09
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

10
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

11
sep
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

11
sep
Menning í Kópavogi
17:00

Pönkganga með dr. Gunna

12
sep
Salurinn

Tvíhöfði | Af fingrum fram í 15 ár

14
sep
Salurinn
20:30

Himinn & jörð

14
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

14
sep
Náttúrufræðistofa Kópavogs
13:00

Haustkórónur með ÞYKJÓ

16
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

17
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

18
sep
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR