Ljóðstafur Jóns úr Vör 2025

Anna Rós Árnadóttir

Ljóðstafur Jóns úr Vör

skeljar

öll hús
eru hús við sjóinn
ef maður bara fylgir lögnunum nógu langt eftir

stundum
þegar hún krýpur á
köldum flísunum
finnst henni hún heyra
daufan óm af
fuglagargi
upp úr klósettskálinni

og þá hugsar hún um söguna
af sjómanninum
sem var spáð sjódauða
og hætti að róa út
hvernig hann flutti
eins langt inn í land
og hann komst
hætti að borða sjávarfang
varð tortrygginn
út í hvern einasta
vota stein
sem varð á vegi hans
í mörg ár

þangað til einn daginn
að hann sofnaði á verðinum
bauð tveimur skipbrotsmönnum gistingu

hún hugsar um sjóstakkana þeirra hvernig þeir hengdu þá upp
og hvernig það draup af þeim
á forstofugólfið
yfir nóttina

um hreyfingarlaust
andlit mannsins í pollinum
í dögun

að lifa
er að sofna á verðinum

að deyja
er að sofna á verðinum

eins og járnsmiður
hugsar hún
sem gerir vettvangsrannsóknir
á skósólum

eins og konu
sem er spáð sjódauða
en flytur samt
inn í hús
þakið skeljum

Anna Rós Árnadóttir

Ragnar H. Blöndal

2. verðlaun

Japanskir morgnar

Ég er eins og eiginkona sjómannsins,
sú sem fékk kolkrabbann í heimsókn,
á mynd eftir Hókusæ.

Ekki man ég svipbrigði hennar
og sé ekki heldur mín eigin þessa stundina
en þykist vita að við brosum bæði út að eyrum.

Í bakgrunni spila hæglátar, málaðar postulínsbrúður
á framandi hljóðfæri.

Einungis þunnur veggur úr bambusviði
aðskilur okkur og allt hitt
sem þarf víst líka að eiga sér stað.

Ragnar H. Blöndal

Kari Ósk Grétudóttir

3. verðlaun

Aðrar lendur

handan við hringinn sem þú hefur gengið rangsælis og réttsælis nótt og dag
þér til húðar

þar eru aðrar lendur
gerðar úr jarðvegi sem henta betur fræinu í krepptum lófa þínum

hættu að hnita og skáskjóttu þér úr iðunni

sjáðu
það eru reykmerki á bláum himni
grænir tíglar að feta sig eftir
gustur eins og lófi á bak þitt

það er autt sæti við varðeldinn
þín er vænst

Kari Ósk Grétudóttir

SÉRSTAKAR VIÐURKENNINGAR

Aukaleikari greinir hlutverk sitt eftir Jón Hjartarson

hlutverkið er þögult
hann stendur í gættinni
ljóskastarinn varpar skuggamynd á þilin
snýr baki í salinn
horfir yfir öxl
hægri vangi veit að áhorfendum
nákvæmlega svona á hann að standa
svo ílangur skugginn nái langt inn á sviðið
leikstjórinn skipar í þessa stellingu
útskýrir hana ekki
á frumsýningu heyrðust niðurbæld andköf úr sal
þegar skjannabirtan flæddi um dyrnar
þá rann upp fyrir honum ljós
þetta var inntak verksins
þessi skuggi sem gerði innrás í rýmið
eins og rýtingur
var fyrirboði
boðaði háskann
sem hríslaðist orðlaus
um salinn

Jón Hjartarson

Draumur um Þórberg eftir Baldur Garðarsson

Ef ég hefði verið viðstaddur
dánarbeð Bergs frá Hala,
hefði ég rétt honum litla glerskál
fulla af morgundögg, og sagt:
„Taktu þessa glerskál með þér
yfir í sumarlandið Bergur minn,
og vökvaðu þar blómin, sálmana,
sendibréfin og Müllers-æfingarnar
með þessum daggardropum“.

Og ef hann ætti heimangengt og
gæti verið viðstaddur þá stund,
þá myndi ég nefna við hann eitt
smáatriði, nefnilega að hann þurfi ekki
að skila skálinni
því fornleifafræðingar myndu hvort eð er finna hana
eftir ótal aldir og segja:
„Nei sko, hér er hundalgeng glerskál frá
20. öld, líklega þýsk fjöldaframleiðsla“.

„Thorberg mem estis tie dum la vojajo!
Gis revito!*

Baldur Garðarsson

* Lauslega þýtt úr esperanto: Þarna var sjálfur Þórbergur á ferðinni í draumnum! Bæ, bæ, við sjáumst síðar!

Speki tímavillinga eftir Bjargeyju Ólafsdóttur

Tattú er tímastimpill
þetta vitum við
tímaflakkarar
og fáum okkur
ekki tattú

Að sama skapi
vil ég ekki
láta brenna mig
ég vil ganga
að beinunum mínum
vísum
kjósi ég
að ganga
aftur

Bjargey Ólafsdóttir

Sverðgleypir eftir Sunnu Dís Másdóttur

hann hefur rispað sig á nögl
eða nagla
eða silfurrýtingi

sem mér tókst ekki að leyna
í kokinu
sveipa silkinu

bleikfölur stilkur
skáhallt niður úr baugnum

biðurolla sem
hallast undan vindi
og bíður þess að blása
burt

Sunna Dís Másdóttir

Svipting eftir Völu Hauksdóttur

Hve djúpvitur
þín smáu andvana augu
hve litsterkur goggur
sem gaf frá sér gráleitt garg
hve sárt er að farga
svo víðflognum vængjum

samt hegg ég á lappir
í eggina koma skörð
risti rauf á ham
sem svarar holu hljóði
losa kjöt úr viðjum húða og himna
með köldum fingrum

þræði fuglafit
með görnum
set upp kórónu
úr fjöðrum
brýt tennur
á höglum

við höfum meyrnað

Vala Hauksdóttir