Ljóðstafur Jóns úr Vör 2023

Sunna Dís Másdóttir

1. verðlaun

Á EFTIR ÞEGAR ÞÚ ERT BÚIN AÐ DEYJA

Á eftir þegar þú ert búin að deyja ætla ég að taka þig með mér héðan, sveipa um þig dimmrauða teppinu sem þú felur þig undir, hylja þig nepalskri jakuxaull og stinga tönnunum þínum í vasann. Vatnið drýpur úr svampinum á náttborðinu. Hann er tannholdsbleikur á hvítum pinna og þú læsir kjálkunum um hann eins og ungbarn um móðurbrjóst þegar hann strýkst við varir þínar. Fyrsta viðbragðið er það síðasta sem hverfur. Á eftir þegar þú ert búin að deyja förum við í sirkus og borðum kandíflos sem límist í góminn klístrast við tannholdið spunninn sykur á pappírsvafningi, hann leysist upp á
tungunni eins og tíminn og ég rétti þér tennurnar og sé hendur þínar verða fleygar á ný.

Sólveig Thoroddsen

2. verðlaun

LOK VINNUDAGS Í SLÁTURTÍÐ

Beinhvítur gúmmíhamurinn
flysjast af mér
niður í sápuvatnstunnuna
en seigfljótandi blóðlyktin eltir mig
úr örlagasalnum og inn á kaffistofu.
Reyni að þynna hana út með kremkexinu.

Sagt er; þau áttu gott líf,
en svo vaknaði grunur síðustu daga.

Við spegil
búningsklefa innisundlaugarinnar
pilla ég upphleyptar blóðfreknur
af andlitinu
áður en ég steypi hamflettum skrokknum
í klórblátt vatnið.

Hjarta, nýru, lifur og lungu
eru enn skorðuð
inní mér.

Helga Ferdinandsdóttir

3. verðlaun

ANNAÐ LÍF

kveikjum á fólkinu
sem tekur ekki
að tala um

dagarnir renna út
í kæliskápum
lokuðum til hálfs

dottandi fjarstýringar
kalla fram
endurtekið efni

á svölunum
bíður sólarhringurinn
og berar arminn

heimilin hverfa
inn í skafla
sem komast ekki til skila

merkingin setur í tösku
búin að gefa
frá sér orðið

gráskorpinn börkur
opnar loks glufu
fyrir annað líf

SÉRSTAKAR VIÐURKENNINGAR

Stefán Snævarr

Hinir dauðu

Karólína Rós Ólafsdóttir

Í fyrsta sinn sem þú býrð á Íslandi

Sólveig Thoroddsen

Rabarbarapæ

Théódór Kr. Þórðarson Skuggasveinn

Skuggasveinn

Sunna Dís Másdóttir

Villisveppir í prioyat

Pétur Eggerz

Vorvindar

Sölvi Halldórsson

Þú segist ekki vera sterkur

Lestu öll ljóðin hér.

Ljóðstafur Jóns úr Vör var veittur laugardaginn 21. janúar.

230 ljóð bárust í keppnina að þessu sinni í ár en ljóðin mega ekki hafa birst áður og skulu send inn undir dulnefni höfundar. Dómnefnd skipuðu að þessu sinni Kristín Svava Tómasdóttir (formaður), Anton Helgi Jónsson og Þórdís Helgadóttir.

Við sama tilefni voru veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs sem fyrst var haldin árið 2012 og var dómnefnd sú sama.

Rökstuðningur dómnefndar fyrir vali á sigurljóði

Í einstaklega vel heppnuðu prósaljóði er dregin upp hárfín og áhrifarík mynd af innilegri nánd við aðstæður sem sjaldan eru í sviðsljósinu.

Tónninn er sleginn strax í titli ljóðsins. Hann brýtur upp hefðbundið orðfæri og skapar þannig nýtt og óvænt sjónarhorn, nýjan skilning á dauðanum sem höfundur vinnur síðan úr á heillandi hátt.

Textinn er barmafullur af áþreifanlegum kærleik og hlýju en þrátt fyrir það laus við alla væmni. Í fáum en ljóslifandi dráttum er teiknað upp viðkvæmt, ljúfsárt augnablik við dánarbeð, þar sem síðustu andartök lífsins kallast á við þau fyrstu. Frjóar og marglaga myndir af tönnum og munni ganga í gegnum ljóðið og skapa sterka jarðtengingu, sem ljær raunveruleikarofinu undir lokin aukinn áhrifamátt.

„Á eftir þegar þú ert búin að deyja“ sýnir á undurfallegan, nýstárlegan og eftirminnilegan hátt hvernig ástvinur lifir áfram í lífi, hjörtum og jafnvel líkama eftirlifenda eftir dauðann. Flæðandi taktur ljóðsins og myndmál lokka lesandann til að koma að því aftur og aftur og lesa margsinnis á meðan tíminn „leysist upp á tungunni“, eins og segir í ljóðinu.