Slegist í för með Jóni

„Þegar Jón úr Vör fæddist fyrir hundrað árum síðan, árið 1917, átti hann sex eldri systkini. Er einhver hér sem á sex systkini?“
Nokkur barnanna í dagskrá Bókasafns Kópavogs um Jón úr Vör fyrir fjórða bekk kinka kolli – það eru nokkrir sem eiga fimm, sex eða sjö systkini.
„En svo eignaðist Jón sjö yngri systkini að auki, svo þau voru fjórtán systkinin,“ segir bókavörðurinn. „Er einhver hér sem á svo mörg systkini?“ Enginn gefur sig fram að þessu sinni. Frásögninni vindur að fátæktinni og baslinu á Patreksfirði snemma á tuttugustu öld og því hvernig Jón úr Vör var sendur í fóstur, bara tveggja ára gamall.
Önnur hönd rýkur upp í loft.
„En af hverju voru þau að eignast svona mörg börn, foreldrar hans? Það er mjög dýrt að eiga börn. Ef þau voru svona fátæk var ekki góð hugmynd að eignast öll þessi börn.“
Bókaverðinum vefst tunga um tönn, en áður en hann nær að byrja að klóra í bakkann skýst önnur hönd til himins.
„Ég veit það! Ég veit af hverju þau eignuðust svona mörg börn!“
Bókavörðurinn er nú farinn að bæði hvítna og blána en býður nemandanum samt að kasta fram skýringu sinni.
„Það er sko af því að þegar þau voru svona fátæk var mikilvægt að hafa marga til að hjálpa til á bænum og klippa kindurnar og svoleiðis!“
Nemandanum er hrósað fyrir praktíska hugsun, honum er bent á að mögulega hafi Jón skósmiður Indriðason ekki verið mikið í hársnyrtingu sauðfjár inni í miðjum Patreksfjarðarbæ, en að öðru leyti hafi þetta verið skarplega athugað. Svo er samtalinu stýrt á aðrar og öruggari brautir.
„Menningarhúsin í Kópavogi eru í samstarfi um skólaheimsóknir,“ segir Arndís Þórarinsdóttir, deildarstjóri á Bókasafni Kópavogs. „Við bjóðum skólunum að koma í ákveðna dagskrá á ákveðnum aldri – og heimsóknarlotan sem nú stendur yfir eru innlit fjórða bekkjar á Bókasafn Kópavogs og Gerðarsafn. Yfirskrift heimsóknanna er „Til annarra hnatta“ og vísar í það hvernig bæði bókmenntirnar og myndlistin sprengja upp veruleikann og opna gáttir inn í aðra heima.“ Leiðsögumennirnir eru þessir tveir gagnmerku listamenn Kópavogs, Jón úr Vör á bókasafninu og Gerður Helgadóttir á Gerðarsafni. „Hér á bókasafninu verjum við sérstaklega tíma í upphaf bókasafnsins, því Lestrarfélag Kópavogs, sem Jón úr Vör átti þátt í að stofna árið 1953, var auðvitað leið hins almenna Kópavogsbúa til umheimsins,“ Segir Arndís „Þar komst venjulegt fólk í snertingu við fróðleik og hugmyndir sem annars voru utan seilingar. Þetta finnst kynslóðinni sem gengur um með nettengda tölvu í vasanum ansi framandi.“
Áður birt í Kópavogspóstinum.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

15
jan
Bókasafn Kópavogs
15
jan
Bókasafn Kópavogs
16:30

Myndgreining

16
jan
Bókasafn Kópavogs
17
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

18
jan
Bókasafn Kópavogs
18
jan
Náttúrufræðistofa Kópavogs
18
jan
Gerðarsafn
14:00

Leiðsögn

20
jan
Bókasafn Kópavogs
slökunarjóga
21
jan
Bókasafn Kópavogs
21
jan
Salurinn
Jón úr Vör
21
jan
25
jan
Bókasafn Kópavogs

Sjá meira