Ljóðstafur Jóns úr Vör 2021

ÞÓRDÍS HELGADÓTTIR

1. verðlaun

FASASKIPTI

Ég elska börnin mín og börnin sem börnin mín

Elska og börnin sem elska börnin mín.

Þau keyra kuldaskó í gegnum ísinn þegar

Tjörnina hefur lagt. Þau elska að beita afli.

Brjóta flísar úr ísingunni og halda þeim upp að

Andlitinu. Ég sé þau út um gluggann, saltsleikt

Auga hússins. Þau smá mig gegnum tært gler.

Ljósgul skíma og svo dimmir. Þannig er tíminn

Skorinn í sneiðar, hvítar og svartar, skiptingin

Ekki bróðurleg frekar en á öðrum gæðum.

Frostið herðir á aðgreiningunni milli heima

Og breytir lygum í sannindi. Gerir göngubrú úr

Svokölluðu yfirborði vatnsins. Ef falskir botnar fela

Eitur eða fjársjóði, hvað felur þá falskt yfirborð?

Börnin en ekki ég treysta gljúfri himnunni

Yfir handanheiminum þar sem andardrátturinn

Rennur í öfuga átt. Enda er stutt síðan þau komu

Í gegn, önduðu hringöndun meðan þau drukku,

Fljótandi fæði úr sykurbrjósti. Þau bíta í rendurnar

Bryðja glerbrjóstsykur, stolt af styrk sínum.

Í barnatennur vantar taugarnar fyrir tannkul.

Það blómstrar ætiþistill í eldhúsglugganum.

Enginn elskar veturinn eins og börnin mín.

EYÞÓR ÁRNASON

2. verðlaun

Skrítnir dagar

Á þessum tímum

þegar lásbogar daganna

spennast upp einn af öðrum

set ég verði á litlu trébrúna í gilinu

Þeir hleypa engum yfir nema þeim

sem hafa uppáskrifað frá yfirvöldum

réttindabréf í byggingu skýjaborga

 

Frammi í dalnum tjöldum við, hlustum

á stjörnuhröp og kveikjum langelda

meðan harmonikan sefar fuglana

 

Senn rísa borgirnar

 

Og það verð ég að segja

að ég hef ég ekki kastað

draumum mínum

fyrir ljónin

UNA BJÖRK KJERÚLF

3. verðlaun

Óvænt stefnumót

Á opnu í stafrófsbók er mynd af kolkrabba og ljóni

 

Frá upphafi tímans hafa augu þessara dýra aldrei mæst

annars staðar en þarna

SÉRSTAKAR VIÐURKENNINGAR

Eyþór Árnason

Gömul bylgjulengd

Mazím Gorkí

Vindmyllur

Bjarni Bjarnason

Án titils

Án titils

Haukur Þorgeirsson

Hendur

Hjörtur Marteinsson

HEIMSÓKN

331 ljóð barst í keppnina  árið 2021 en ljóðin mega ekki hafa birst áður og skulu send inn undir dulnefni höfundar. Dómnefnd skipuðu Ásta Fanney Sigurðardóttir, Eiríkur Ómar Guðmundsson og Kristín Svava Tómasdóttir.