Ljóðstafur Jóns úr Vör 2022

Brynja Hjálmsdóttir

1. verðlaun

ÞEGAR DAGAR ALDREI DAGAR ALDREI

Alltaf springa þau
á veturna
handarbökin
ekki í loft upp heldur eftir rásum

Skurðir kvíslast
skinn flagnar
eins og í mótmælaskini:
nú er nóg komið

Sprungur
í uppurinni uppsprettu
mósaíkmynd
fúgan milli flísanna er rauð

Rauðir skipaskurðir:
gluggar inn í annan heim
innanverðan heiminn

Hún ber smyrsl á öll þessi ósköp
eins og til að sparsla í gamlar holur
sem hún boraði ekki sjálf
ekki ein í það minnsta
en hér alltaf svo kalt og smyrslið
bara frýs
eins og hvað annað

Hér er auðvelt að gleyma
að sólin sé alvöru himintungl

En alltaf finnst fólk
sem er of latt
til að bera inn ljósin hundraðþúsund
sem það strengdi í trén
fléttaði um svalirnar
um handriðin og húnana

Fólkið er þreytt

Því hanga þau þarna enn
sindrandi

tær

Jakub Stachowiak

2. verðlaun

DREYMT Á JAFNDÆGURNÓTT

Í regnúðakenndri
septemberþoku

tipla ég á tánum
trufla ekki þögnina
í drykklanga stund
heyrist ekkert

þar til þögnin verður svo djúp
að ég heyri hrotur
í líkkistusmiði
úr húsinu spölkorn frá

ég elti þær þar til ég kem
í furðulegan kirkjugarð

í stað legsteina
gægjast þar úr moldinni
horn blindra dádýrA

Elín Edda Þorsteinsdóttir

3. verðlaun

KANNSKI VARTSU ALLAN TÍMANN NÁLÆGT

Stundum villist þú
og þarft að hjóla í marga hringi
og fylla lungun af framandleika

og stundum þarftu að stíga af hjólinu og rölta
og kannski setjast á bekk
og lesa í húsin eins og andlit á óskýrri hópmynd
og fylgja síkjum, mávum, gæsum
og finna frumstæðan áttavita
dyrabjöllur, þök, tjarnir, strompa, hægri og vinstri

og stundum dimmir
og ljósastaurarnir eru einu vinir þínir
en jafnvel þeir gefast upp
og sem betur fer ertu með svefnpoka
og þegar þú vaknar ertu í litlum almenningsgarði
eða í verslunarkjarna
sem fyllist af fólki
og þú brýtur heilann um hvort þetta sé fólk að þínu skapi
og þú kíkir ofan í innkaupapoka, bakpoka og veski
og gerir könnun:
hvað borðar fólkið?
hvað les fólkið?
hvað kýs fólkið?
hefur fólkið smekk fyrir þér?

Ef ekki heldurðu áfram
kíkir inn um alla glugga
rannsakar gardínur, málverk, hrærivélar, hraðsuðukatla

Þangað til þú hittir mann með blómvönd
eða konu í ullarsokkum eða anda
og þú gefst upp
og spyrð hvar þú eigir heima
og maðurinn eða konan eða andinn
leiðir þig heim

þótt þetta sé kannski ekki blómvöndur að þínum smekk
eða ullarsokkar eða andardráttur

þá líður þér betur
innan um grænan sófa, rimlagardínur og landslagsmálverk

 

SÉRSTAKAR VIÐURKENNINGAR

Draumey Aradóttir

Svefnrof

Guðrún Brjánsdóttir

Getraunir

Ragnar H. Blöndal

Það sem ég á við með orðinu hjónasæng

Hallgrímur Helgason

Vista Canale

Jón Hjartarson

Kvöldganga að hausti

Sigrún Björnsdóttir

A-hús
Silfurstrengir

Lestu öll ljóðin hér.

Ljóðstafur Jóns úr Vör var veittur sunnudaginn 20.febrúar en hátíðin fagnaði 20 ára afmæli sínu árið 2022.

Alls 212 ljóð bárust í keppnina.

Dómnefnd skipuðu Ásta Fanney Sigurðardóttir (formaður), Anton Helgi Jónsson og Kristín Svava Tómasdóttir.

Rökstuðningur dómnefndar fyrir vali á sigurljóði

Ljóðið bregður upp næmri mynd af samofnum veruleika líkama, umhverfis og andlegs ástands í kuldanum og myrkrinu þegar veturinn virðist aldrei ætla að taka enda. Fúga milli flísa er rauð líkt og þornuð sár sem borið er smyrsl á til að verjast veðráttu og þaðan er leitað farvega inn á við.

Þetta er saga manneskju sem lifir í landi þar sem náttúruöflin leggja línurnar, sett fram í vel útfærðri sneiðmynd af íslensku skammdegi. En einnig er kafað dýpra, smyrslið verður að heiðarlegri tilraun til að koma ljóðmælandanum til bjargar í skurðum hversdagsins. Þótt sjái ekki til sólar veita jólaseríur sem ekki hafa verið teknar niður einhverja von, tær ljós sindra þótt aldrei virðist ætla að daga.

Höfundur fléttar saman mismunandi aðstæður í heilsteypta sögn þar sem myrkur og ljós raðast saman og mynda streng milli hins ytra og innra heims. Tóninn er tilgerðalaus og hreinskilinn, skýr og sterkur og grípur lesandann um leið í beittum og hrífandi samsetningum.