París hefur sögulega alltaf verið vagga byltinga en varð á fyrri hluta 20. aldar miðstöð lista og menningar. Fjöldi listrænna hreyfinga fæddist þar, götur og kaffihús borgarinnar urðu goðsagnakenndir samkomustaðir listamanna.
Zeynep Ücbasaran og Peter Máté hafa unnið að „Allar leiðir liggja til Parísar: Tónlist fyrir tvö píanó“ síðustu fjögur ár. Verkefnið inniheldur tónsmíðar eftir tónskáld sem bjuggu í París, lærðu þar og voru djúpt innblásin af menningarhefðum frönsku höfuðborgarinnar.
Zeynep og Peter bjóða upp á litríka efnisskrá með tónverkum fyrir tvö píanó sem sjaldan heyrast á tónleikapöllum. Tónleikarnir þeirra veita innsýn í fjölbreyttan stílheim sem einkennir tónlist Parísar á 20. öld. Hér má heyra síðrómantík Skrjabíns og Enescu, impressjónisma Ravels, yndisþokka tónlistar „Les Six“-hópsins sem og þjóðlega eða djasskennda danstónlist Casadesus og Françaix.
Dagskráin „Allar leiðir liggja til Parísar“ hefur þegar hlotið góðar viðtökur hjá áhorfendum á Ítalíu og í Tyrklandi, við höfum einnig fengið boð í útvarpsstúdíó tyrkneska ríkisútvarpsins í Ankara í lifandi flutning og viðtal.
Við fögnum því að geta kynnt þessi áhugaverðu verk á Íslandi.
Á undan tónleikunum verður boðið upp á tónleikaspjall klukkan 13:00. Aðgangur á spjallið er ókeypis og öll velkomin.

Píanóleikarinn Zeynep Ucbasaran hóf tónlistarnám sitt fjögurra ára gömul við Tónlistarskóla borgarinnar í Istanbúl. Hún lauk diplómaprófi frá Liszt-tónlistarháskólanum í Búdapest, Ungverjalandi.
Eftir framhaldsnám við Hochschule für Musik í Freiburg, Þýskalandi, lauk hún MA- og DMA-gráðum í píanóleik frá University of Southern California.
Meðal annarra faglegra viðurkenninga, eins og verðlauna frá American Liszt Society, hlaut Ucbasaran verðlaun í Liszt-keppnunum í Los Angeles árin 1996 og 2000. Hún var útnefnd Kona ársins 2003 af samtökunum Daughters of Atatürk í Bandaríkjunum.
Ucbasaran hefur haldið einleikstónleika víða í heiminum og hefur gefið út geisladiska með tónlist eftir Liszt, Schubert, Mozart, Scarlatti, Beethoven og tuttugustu aldar tónskáld eins og Saygun, Bernstein og Muczynski. Upptökur hennar á scherzoum og polonaisum eftir F. Chopin og öllum píanósónötum og tilbrigðum eftir W. A. Mozart en einnig píanótónlist A. Saygun voru gefnar út af Naxos International.
Hún hefur haldið meistaranámskeið og fyrirlestratónleika víðsvegar um Bandaríkin, Brasilíu, Spán, Svíþjóð, Ísland og Tyrkland.

Peter Máté píanóleikari var fæddur í Tékkóslóvakíu en hann hefur verið búsettur á Íslandi frá árinu 1990. Peter lauk einleikara- og kennaramastersgráðu úr Tónlistarakademíunnni í Prag. Á námsárunum vann hann til margra verðlauna í heimalandi sínu og síðar í alþjóðlegum keppnum, svo sem í Vercelli og Enna á Ítalíu á árunum 1986 og 1989.
Peter hefur haldið einleikstónleika og tekið þátt í kammertónleikum (Tríó Reykjavíkur, Kammertríó Kópavogs, o.fl.) víða á Íslandi og farið í tónleikaferðir til Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna auk Austur-Evrópulanda.
Peter er prófessor og fagstjóri Listaháskóla Íslands en kennir einnig píanó við Menntaskóla í tónlist. Hann hefur frumflutt mörg íslensk píanó- og kammerverk og hefur haldið fyrirlestra um íslenska píanótónlist erlendis. Heildarupptaka Peters á píanóverkum eftir John Speight var valin hljómplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum 2021.
Peter hefur verið gestakennari margra erlenda tónlistarháskóla. (Budapest, Brussels, Chicago, Graz, Helsinki, Lyon, Oslo, Poznan, Riga, Stokkhólmur, Tallinn, Modena o.fl.)