Hvernig er þitt draumalandslag? Viltu bleika sanda, hrjóstrugt hraun úr piparkornum eða karrýgul jarðhitasvæði?
Við skoðum náttúruna með augunum, höndunum…og ímyndunaraflinu! Þátttakendur hanna lítinn landskika fyrir ímyndaðan íbúa og þjálfast í að hugsa í skala og móta umhverfi í kringum lífveru.
ÞYKJÓ er þverfagleg hönnunarstofa sem vinnur fyrir og með börnum og fjölskyldum þeirra. Verkefnin eru fjölbreytt á sviði vöruhönnunar, upplifunarhönnunar, innsetninga og þátttökuverkefna. Hönnunarstarfið miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik, en á meðal verkefna hópsins má nefna Hljóðhimna í Hörpu, húsgagnalínuna Kyrrðarrými, búningalínuna Ofurhetjur jarðar og þátttökuverkefnið Gullplatan – Sendum tónlist út í geim. ÞYKJÓ hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín, en þeirra á meðal eru Hönnunarverðlaun Íslands árið 2024, SVEF verðlaunin 2021 og YAM Awards 2023.