Lesandi foreldrar, lesandi börn

1900 bækur lesnar í sumarlestri Bókasafns Kópavogs
Mikið er rætt um framtíð tungumálsins og hlutverk bókmenntanna í því samhengi. Á Bókasafni Kópavogs er þetta viðfangsefni stöðugt til umræðu, enda er málið safninu skylt.
„Það segir sig sjálft að barn sem les ekki bækur á ekki allt í einu eftir að byrja að lesa sér til skemmtunar þegar það fullorðnast,“ segir Arndís Þórarinsdóttir, deildarstjóri á Bókasafni Kópavogs. „Og þegar þjóðin verður hætt að lesa á íslensku þá þarf ekkert að spyrja að leikslokum. Þá hverfur tungumálið hratt og með því heill menningarheimur.“
Á safninu er mikið fengist við lestrarhvatningu og starfsfólkið veltir fyrir sér hvað virkar og hvað ekki. Gréta Björg Ólafsdóttir, deildarstjóri barnastarfs á Bókasafni Kópavogs er í daglegum samskiptum við yngstu lesendurna. „Við leggjum talsverða áherslu á samskipti við skóla og leikskóla. Okkur finnst mikilvægt að krakkarnir þekki safnið og séu öruggir hér innanhúss og rati í hillurnar. Að auki stöndum við fyrir ýmsum verkefnum eins og hinum árlega sumarlestri, sem undanfarin ár hefur verið unninn í samstarfi við menntasvið Kópavogsbæjar. Börnin skrá hjá okkur aldur og skóla þegar þau hefja leikinn og nú erum við að skoða hvernig þátttakan var,“ segir Gréta.
Um 1900 bækur voru lesnar í sumarlestrinum í sumar, en börnum á aldrinum 5-12 ára var boðin þátttaka. „Flestir komu úr Lindaskóla, enda búa þau svo vel að bókasafnið er staðsett í skólabyggingunni þeirra. Nálægðin við safnið skiptir klárlega máli,“ segir Gréta. Hún segir það gleðilegt að munur á þátttöku kynjanna sé minni í ár en í fyrra, en mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að hvetja drengi til lestrar og það virðist vera að skila sér. Sumarlesturinn stóð í ellefu vikur og í sex þeirra tóku fleiri stúlkur þátt en drengir. Sjö ára börn reyndust duglegustu lestrarhestarnir þetta árið.
„Það skiptir máli að halda krökkunum við efnið á sumrin,“ segir Gréta, sem bætir því samt við að það séu engin einföld svör við því hvernig best sé að ala upp bókaorma. „Andrúmsloftið á heimilinu skiptir mjög miklu máli. Börn sem sjá foreldra sína lesa eru miklu líklegri til að grípa bók. Og svo hefur aðgengi að lesefni líka mikið að segja og þar koma bókasöfnin til sögunnar. Við segjum stundum við krakkana að það sé tölfræðilega ómögulegt að allar 104 þúsund bækurnar á Bókasafni Kópavogs séu leiðinlegar! Ef það er leiðinlegt að lesa er það bara af því maður hefur ekki enn fundið réttu bókina.“
Litlir lestrarhestar
Nafn og skóli: Sara Áróra Ásgrímsdóttir Daria, Furugrund.
Hvað ertu að lesa núna? Karíus og Baktus, Ferðin til Panama og Fíasól á flandri.
Hvernig bækur finnast þér skemmtilegastar? Bækur með flipum, Dimmalimm og bækur um geiminn.
Ef þú mættir vera sögupersóna í bók, hvaða bók myndir þú velja? Veit ekki.
Nafn og skóli: Sveinbjörn Daði Kristjánsson, Smáraskóla
Hvað ertu að lesa núna? Andrés Önd því sögurnar eru skemmtilegar og Skúli skelfir því hann gerir vitlausa hluti
Hvar finnst þér best að lesa? Uppi í rúmi.
Ef þú mættir vera sögupersóna í bók, hvaða bók myndir þú velja? Andrés Önd
Áður birt í Kópavogsblaðinu.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

16
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

17
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

18
sep
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

18
sep
Bókasafn Kópavogs
16:00

Bókmenntaklúbburinn Hananú!

18
sep
Gerðarsafn
12:15

Hljóðvefur um Hamskipti

21
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Friðardúfur á friðardegi

21
sep
Salurinn
20:00

Söngkvöld með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Vísindakakó

22
sep
Gerðarsafn
12:00

Gluggar Gerðar

23
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

24
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR